sunnudagur, maí 11, 2008

Þegar maður er að kálast úr leiðindum yfir flensuleifum fæðast svona skoðanir.

Aumingja Egill Einarsson skilur ekki enn af hverju hann vann ekki Júróvisjón. Ég skil það mjög vel - þrátt fyrir að hafa misst af öllum laugardagslögunum í vetur svo og úrslitakeppninni og almennt ekki haft skoðun á neinu: Ef þú ætlar þér að vinna með grínatriði verður brandarinn að vera ansi góður - og enginn ljóður á framsetningunni. Vissulega voru margir sem fíluðu húmorinn - en flestir vissu sem var að fyrst að stór hluti Evrópu tók Silvíu Nótt hátíðlega átti þessi bílaklúbbur aldrei séns. Og, það sem skiptir meira máli, þú býrð ekki til gott leikrit með því að gera sama hlutinn aftur - bara talsvert slakar.

Það hefur nefnilega verið algengur misskilningur að Júróvisjón sé einhvers konar söngvakeppni - hún er það alls ekki. Þetta er risastór örleikrita hátíð. Með tónlist. Þau lönd komast langt sem tekst að skapa heilstæða 3 mínútna sýningu. Allir þættir þurfa því að koma saman; handrit, leikur (söngur), leikstjórn, sviðsmynd, lýsing o.s.frv. Hvers vegna haldiði annars að Serbar hafi unnið í fyrra? Nú eða Finnland árið áður með Lordi? Þessi lönd settu upp leikrit fyrir okkur og skemmtu á meðan. Finnland sagði frá hópi af drýsildjöflum sem tókst loksins að meika með með þétt rokklag - sagan þarf ekki alltaf að vera flókin - á meðan Serbar... tja. Ég er ekki alveg með það á hreinu en það var allt sagt af mikilli innlifun. Textinn var á serbnesku og rútínan var vandlega kóreograferaður anti-dans jakkafataklæddra kvenna sem létu hjörtun mætast. Andi Sapphó sveif yfir vötnum og til varð leikhús:Úkraína var líka í gríðarlegum leikhúsham og á meðan Serbar fullkomnuðu melódramað skelltu hún sér út í fáránleikaleikhúsið og lenti í öðru sæti.

Ef hinu íslenska Eurobandi tekst að búa til skemmtilega sýningu úr sínu lagi gæti þetta gengið hjá þeim. Það er vísir að slíkri hugsun í myndbandinu. En ég er ofboðslega hrædd um að við eigum eftir að enda með örugga en ófrumlega dansrútínu og tíðindalausan flutning á týpísku popplagi og það er ekki mikið leikhús í því. En möguleikarnir til staðar!

Þegar ég verð stór langar mig að verða Júróvisjónleikstjóri.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ásta min, mér fannst mjög gaman að þættinum í morgun. Skemmtilegur og áhugasamur. Keep up the good works.
Guess who

Nafnlaus sagði...

Djö yrðir þú góður júróvisjónleikstjóri!
JYJ

Hörður S. Dan. sagði...

Já það er nokkuð til í því.

Júróvision leikrit.

næsta skref væri að fá keppnishaldara til að viðurkenna það og þá væri hægt að fara enn lengra. þá myndi ég sko horfa spenntur.

Hörður S. Dan.

Spunkhildur sagði...

Loksins - loksins...

Ég er búin að vera einlægur júróvisjónaðdáandi allt mitt líf og hef alltaf litið á hana einmitt svona.