föstudagur, ágúst 29, 2003

Um að gera að blogga eins og vindurinn áður en nýja brumið fer af þessu.

Lifum í sátt og samlyndiÉg var úti í bakaríi áðan (keypti stóra ameríska súkkulaðiköku og 6 eplastykki ... mmmm ... ) og þar sem ég var að rýna í kræsingarnar í borðinu varð ég vör við annarlega hreyfingu. Tveir hlussustórir geitungar höfðu sest að í borðinum - nánar til tekið hjá snúðunum. Þar sveimuðu þeir fram og aftur í augljóslega mjög góðu yfirlæti og vissu um að þeir yrðu látnir fullkomlega í friði. Enda virtust stúlkurnar á bakvið borðið ekki hafa miklar áhyggjur og tilkynntu rólega að það væri til fleiri snúðar á bakvið. Ég er nú orðin yfirmáta stóísk þegar kemur að geitungum og gat eiginlega ekki látið þetta pirra mig á nokkurn hátt. Hefði sennilega keypt mér snúð úr borðinu ef hugur minn og hungur hefðu legið í þá átt. Hvaðan kemur þetta sinnuleysi eiginlega? Er ég búin að venja mig svo kyrfilega á þann hugsunarhátt að geitungar séu hættulausir og tilgangslaust að fríka út að ég mundi glöð brjóta brauð (eða snúð) með einum eða tveimur slíkum? Kona sem var þarna í brauðleit var ekki jafn róleg og ég þegar ég benti henni á geitungana og vildi vita hvers vegna stúlkurnar væru ekki með spaðana á lofti. Þetta er víst gasalega heilsuspillandi. Ég segi nú bara; leyfið geitungunum að koma til mín. Þeir geta fengið bita af kökusneiðinni minni.

Engin ummæli: