föstudagur, mars 11, 2005

Kominn föstudagur – með frosti í vöngum og sól í haga. Ekki hef ég hugmynd um hvers vegna ég hef ekkert bloggað í 10 daga og verður sá leyndardómur einfaldlega að fá að flokkast með óútskýrðum málum á borð við íverustað Geirmundar og Guðfinns svo og þetta. Það er smá föstudagsfiðringur í mér sem mun vonandi endast fram á kvöld og ekki deyja út með eftirmiðdagsþreytunni. Idolgláp og almenn vitleysa í kvöld eins og vera ber og ætli ég standi svo ekki í húsgagnalagfæringum og kjallahreinsunum um helgina. Strákpjakkurinn er farinn úr kjallaranum og ekkert því til fyrirstöðu að spúla hann almennilega. Öll aðstoð gríðarlega vel þegin.

Söngnámið gengur svona lala. Hálsbólga síðustu vikna hefur komið í veg fyrir einhver tilþrif og samkvæmt söngkennara ráði á ég bara að þegja sem mest - a.m.k. þangað til hún gengur yfir.

Mig langar til útlanda og get ekki stillt mig um að öfundast út í Nönnu og Jón Geir sem eru að fara að Ampoppast á þessari hátíð í næstu viku.

Hnuss! Hvern langar svosem að heimsækja heimafylki tvöfalda vaffsins, ég bara spyr? Ég er viss um að það verður of heitt þarna og örugglega skröltormar út um allt!

Engin ummæli: