sunnudagur, júlí 03, 2005

Jæja - hljómfræðipróf á morgun og ég búin að bretta upp ermar og tekin til við lærdóminn.

Fyrst þurfti ég auðvitað að vera útsofin og skreið því ekki fram úr rúmi fyrr en kl. 1.

Svo gat ég ekki einbeitt mér að lærdómnum fyrr en ég hafði kíkt aðeins á netið og vaskað upp og tekið til í eldhúsinu.

Fór út með ruslið og lagaði til tréð sem sat ansi hallandi í alltof stórum blómapotti við útitröppurnar með því að setja steina í pottinn.

Þurfti því næst að þrífa stofugólfið því Lísa var víst eitthvað að mótmæla því að ég gleymdi að kaupa kattasand í gær og vökvaði einn sófafótinn.

Ég byrjaði síðan að lesa en eftir einn kafla saknaði ég tónlistar og náði því í spilarann minn og stakk í samband bak við sjónvarpið. Tók þá eftir því að ég átti eftir að stinga DVD spilaranum í samband sem á nú að vera nokkurra sekúnta verkefni og ágætt að klára fyrst ég var að bifast þarna á bak við til að byrja með. En fjandans sjónvarpið vildi ekki birta mynd af því sem spilarinn var í góðri trú að spila og eftir að hafa rifið í hár mitt og prófað öll skart tengi hússins í öllum möglegum götum gafst ég upp.

Þreif rykið af sjónvarpinu í staðinn.

Eftir alla þessa geðshræringu og erfiðsvinnu þurfti ég nauðsynlega að setjast niður og blogga smá. Er alveg eftir mig eftir allt þetta vesen og er að spá í taka mér pásu frá lærdómnum. Ég var búin að gleyma hvílík hörkuvinna það er að vera í skóla.

Engin ummæli: