föstudagur, júlí 14, 2006

Rockstar Rockstar Rockstar

Ég var ein af fáum sem hafði minna en engan áhuga á Rockstar: INXS þegar þeir þættir voru sýndir - jafnvel þótt ég eigi í fórum mínum einu markverðu plötuna sem sú hljómsveit gaf frá sér. Mér leiðist almennt sýndarmennska rokkaranna og gat ekki skilið þann pól sem útúrkókaðir og nýafvatnaðir dómararnir voru að taka í hæðina. Það hjálpaði sennilega ekki að hafa draug Michael Hutchins svífandi yfir útsendingum.

Nú er komin röðin að Rockstar: Supernova og nú er þó byrjað með næstum því ferskt - a.m.k. nýstrokið - band. Smá endurnýjun og nýting í gangi en þannig er það jú alltaf. Íslendingur með í för sem virðist bara vera nokkuð vel til fundið - þrátt fyrir smá byrjunaraulahrolla.

Ég hef reyndar ekki afrekað það ennþá að sjá heilan þátt sökum leikrita-anna en það skiptir í sjálfu sér ekki máli. Ég heyri eftir á frá því sem markvert er og get séð allt sem ég kæri mig um á netinu á hinni prýðisgóðu heimasíðu þáttanna.

Ég spá því að einhver miðlungs karl-skussinn muni vinna þessa keppni - og að Magni hangi inni nógu lengi til að halda upp heiðri lands og þjóðar. Dilana - sem ber höfuð og herða yfir alla aðra keppendur þrátt fyrir smæð - á ekki að vinna. Ég get ekki ímyndað mér að það sé hollt fyrir hennar frama að sitja uppi með þessa afdönkuðu rokkara. Einhver lævís framleiðandi ætti að sjá sér leik á borði - bjóða henni gull og græna skóga og feitan plötusamning - og hún getur þá látið sig falla úr keppni undir lokin sökum, ja, óviðráðanlegs hiksta kannski? Það er afskaplega lítið rokkað við hiksta.

Engin ummæli: