þriðjudagur, október 10, 2006

Um leið og ég finn nennuna til þess ætla ég að taka til í linkalistanum hér til hægri. Ég veit orðið um alltof mikið af fólki sem á miklu frekar skilið að vera upptalið heldur en ónefnd letidýr. Munið það með mér.

Það er alltaf viss hætta sem fylgir því að blogga þegar maður er latur og aumingjalegur sem er sú allar færslu fara að fjalla um leti og aumingjaskap (og NB skal ekki ruglað saman við þunglyndi sem er allt önnur og stórhættuleg ella.) Ég eyddi allri helginni í að passa börn bróður míns þar sem foreldrarnir skelltu sér út fyrir landsteinana - og var meira eða minna á stanslausri pissu og snýtuvakt. Heba líka. Var síðan svo stórheppin að veikjast á sunnudaginn. Ég vil engum svo illt að fara að segja frá því í smáatriðum. Og ég er búin að komast að því endanlega að ég er handónýtur kandídat í einhleypa móður. Tvö börn á 2-3 ára aldrinum er minnst tveggja manna starf og ég hefði aldrei meikað þetta án Hebu. Börnin eru auðvitað yndisleg en það tók þau alveg 5 daga að venjast því að hafa Ástu frænku þarna í staðinn fyrir mömmu og pabba þannig að flestir morgnar byrjuðu á gífurlegu svekkelsi yfir stöðu mála. Síðasta daginn var komið n.k. jafnvægi á og þá var þetta auðvitað búið. Sigrún Ýr var reyndar fljótari til að haga seglum eftir vindi - enda á hápunkti "ég get sjálf" aldursins - en tilhugsunin um Spiderman inniskó sem mamma hans var búin að lofa honum hélt Gísla Hrafni gangandi. Einn morguninn vaknaði ég við að hann þeyttist inn í svefnherbergið til mín og hrökklaðist frá rúminu þegar hann sá hver lá í því. Hann lét nú samt ekki hugfallast heldur tautaði aftur og aftur fyrir sjálfum sér "Spiderman inniskór ... mamma sagði ... Spiderman inniskór..." Fór síðan aftur inn í sitt herbergi þar sem Sigrún Ýr var að vakna og útskýrði samviskusamlega fyrir henni að mamma og pabbi þurftu að "fljúga yfir allt hafið" og svo fengi hann ... hvað annað ... Spiderman inniskó. "Og ég Bangsímon inniskó" tísti hún hamingjusöm og svo fóru systkinin að fá sér morgunmat. Þetta var reyndar auðveldasti morguninn :)

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

bueno muyy lindo el flog te dejo el mio a si te pasas un bessito!!