þriðjudagur, október 31, 2006

Nú stendur yfir bráðskemmtileg stuttverkasamkeppni á leiklist.is og geta allir farið þangað inn og lesið þau 15 verk sem valin voru í úrslit og gefið atkvæði. Ég hélt að þetta yrði kannski flókið verkefni en þegar til kom fannst mér nákvæmlega þrjú bera af hinum (og tvö önnur komast næst því) þannig að atkvæðaval var bæði ljúft og auðvelt.

Þar sem það eru ágætis verðlaun í boði gældi ég auðvitað við þá hugmynd að senda sjálf inn verk en ekki varð neitt úr neinu - október búinn að vera þannig mánuður að ég hef ekki getað einbeitt mér að neinu öðru en eymslum og ömurleik. Þ.e. ekki fyrr en ca. klukkustund eftir að frestur rann út en þá fæddist í mér lítill einþáttungur sem meira að segja náði fullum þroska. Byrjun, miðja, endir, hvörf og læti. Og brandari sem aðeins Hugleikarar kynnu að meta. Fylltist ég þvílíku stolti við framtakið að nú langar mig skyndilega til að klára fleiri hluti. Ég er að hugsa um að gerast svo djörf að setjast niður og lesa yfir það sem komið var af MA ritgerðinni í den (heilar 27 blaðsíður!) og athuga hvort eitthvað er nothæft. Hún er víst ekki jafn slæm og mig minnti.

3 ummæli:

Siggalára sagði...

Gáðu hvort þessar 27 eru ekki örugglega í 12 pt letri og með tvöföldu línubili!

Það sem mér leið ekki eins og fávita þegar ég komst allt í einu að því, þegar ég hélt ég væri hálfnuð með mína, að hún var orðin 120 blaðsíður.

Ásta sagði...

Ég aldrei þjáðst að óþarfa skrifflæði. Þessi er greinilega í 12 pt og með mjög tvöföldu línubili. Yfirleitt þarf ég að fylla út í kláraðar ritgerðir til að ná upp í tilskilinn blaðsíðufjölda.

Siggalára sagði...

Já. Ég einmitt líka. Þetta var í eina skiptið sem ég hef þurft að stytta eitthvað sem ég hef gert. (Og þá þurfti ég líka að stytta um svona mánuð!)