miðvikudagur, mars 21, 2007

Vinna + skóli keppast við að drekkja mér þessa dagana. Ásamt öllu hinu. Og hvernig stafar maður aftur "sjálfsskaparvíti?"

Ég ætla ekki að velta mér of mikið upp úr því heldur einblína á Barcelonaförina sem hefst eftir tvo daga. Það er spáð rigningu. Jibbíjei.

Mér finnst ég alltaf hafa glutrað niður félagslífinu á slíkum tímum en þegar vandlega er skoðað er það nú ekki svo slæmt. Aðal hasarinn um helgina fólst reyndar í því að horfa á vídeó með Auði-sem-á-að-eiga-eftir-tvær-vikur og Ragga á laugardagskvöldið. Þvílíkt bóhemalíf sem ég lifi. Ég ætlaði að vísu að kíkja á Nönnu og co. tromma með glæsibrag á sunnudaginn en veðjaði því miður á ranga verslunarkeðju.

The Prestige reyndist vera ágætist mynd sem pirraði okkur mjög sökum þess hversu ruglingsleg hún var. Ég veit að trixið við hana var það myndin sjálf átti að funkera sem n.k. prestige* en hún klikkaði í undirbúningum. Í stað þessa að fela spotta- og kanínuleg plottin með því að sveipa þau hversdagsleika - innan myndmáls kvikmyndarinnar (eins og var t.d. gert í myndum á borð við The Sixth Sense og The Others) - var stuðst við hraðar klippingar og ruglingsleg stökk í tíma. Það fékk mann hins vegar bara til að leita eftir því sem var verið að fela. Það er kannski gallinn við að gera myndir um töframenn - sérstaklega þar sem plottið á að koma á óvart - væntingarnar verða óklífanlegar.

Hrós dagsins fær Augað í Kringlunni fyrir að gera við gleraugun mín á mettíma og endurgjaldslaust eftir að ég steig á þau í gær og braut. Þau eru nú betri en áður en ég braut þau. Ef aðeins fleiri fyrirtæki byðu upp á slíka þjónustu. T.d. Toyota umboðið.

__________________________________
* kalla eftir góðri þýðingu - það er s.s. galdurinn sjálfur - sá tímapunktur í atriðinu þegar þú lítur á sessunautinn og segir "hvernig í fjandanum fór hann að þessu?"

Engin ummæli: