fimmtudagur, maí 03, 2007

Bingó er búið í bili. Síðast sýning var í gær - bæði fyrir leikritið og leikhúsið sem er verið að rífa í tætlur í þessum orðum skrifuðum. Hún tókst með eindæmum vel og áhorfendur eðlilega hrifnir. Ég hafði ekki horft á frá því á þriðju sýningu og frábært að sjá hversu þétt og snuðrulaus hún var orðin. Ég veit ekki hvort, hvenær og hvar hún verður tekin upp aftur - held að málið sé athugun - en það er virkileg synd að kippa henni svona úr umferð þegar hún er komin á almennilegt flug.

C'est la vie. Áhugaleikfélög eru víst vön að sníða sér stakk eftir vexti.

Á meðan ég man: hvernig væri að brýna fyrir leikhúsgestum að setja ekki aðeins símana á "silent" heldur slökkva alfarið á þeim. Og alls ekki vera að senda sms út alla sýninguna! Manneskjan sem sat við hliðina á mér ótrúlega ræðin og gat ekki haldið athyglinni við það sem fyrir augu bar. Hún var með einn af þessum símum með stórum, björtum skjá - mun bjartari en á símanum mínum og þó hef ég átt það til að nota skjáinn sem vasaljós. Í aldimmum sal verður þetta "pínku" truflandi. Að maður tali nú ekki um vanvirðingu við sýninguna sjálfa.

Ég tók stigspróf í gær. Annað stig á píanó. Það gekk bara ágætlega. Síðasta lagið fékk að vísu allan stressskammtinn sem hafði safnast upp út prófið. Ég vissi að maður ætti að taka þau lög sem maður kann síst fyrst. Klára það sem veldur mestum áhyggjum strax af. En restin gekk ágætlega. Ég ber engar svakalega væntingar til píanónáms míns. Verð ánægð að ná.

Engin ummæli: