mánudagur, júní 23, 2008

Hundsgrey urðað lifandi og þjóðinni ofbýður. Svosem alveg skiljanlegt.

Það sem ég skil ekki er að fólk skuli virkilega trúa því að slíka mannvosku sé að finna í þessum heimi að hægt sé að sýna dýri viljandi aðra eins grimmd. Að einhver hafi skyndilega fundið hjá sér hvöt til að misþyrma dýri og ganga síðan sáttur til síns heima ánægður með vel unnið dagsverk. Ég veit að fólk misþyrmir dýrum daglega - en yfirleitt er um vanhirðu og hugsunaleysi að ræða. Aðstæður sem taka langa tíma að þróast og gefa góðan tíma til réttlætinga.

Þetta sama skilningsleysi gerir það að verkum að ég fæ ekki trúað því að blóðþorsti hafi haft eitthvað með ísbjarnadráp síðustu vikna að gera. Og hef ég þó aldrei verið mikið fyrir skotveiðarnar.

Ég vil endilega trúa því að einhver hafi t.d. keyrt á hundinn, haldið að hann væri dauður og urðað hann til að losna undan ábyrgð. Það er atburðarrás sem passar inn í mína heimsmynd. Slíka persónuleikabresti skil ég. Ekki hina.

fimmtudagur, júní 19, 2008

Það var nú bara soldið gaman í skólanum. Eins og svo oft áður.

Eitt það besta við þennan skóla að mínu mati er að hann er ekki staðnaður í órjúfanlegum hefðum. Alltaf skal fundið upp á nýjum hlutum sem berast gjarnan með nýju fólki og tryggir að hver upplifun verður einstök.

Að þessu sinni lenti þorri kvenþjóðar skólans undir Bollywoodálögum. Við settumst niður eitt kvöldið og horfðum á hina sívinsælu rómantísku gaman/dans/söngvamynd Kuch Kuch Hota Hai. Þrír tímar af endalausri skemmtan. Í fyrstu óaði okkur talsvert fyrir þessu ferðalagi og háðsglósurnar sem beindust að skjánum yfirlætislegar og ófáar en þegar dvd diskur bilaði skyndilega í miðjum klíðum var sem hjörtu vor hefðu verið kramin og örvæntingin skein í hverju andliti þar sem við reyndum að koma gripnum aftur í eðlilegt horf. Sem betur fer tókst það og við fengum að halda áfram hinu dásamlega ferðalagi ásamt Rahul og Anjeli.



Ég var ekki á því sjálf en mér skilst að námskeiðið hennar Ágústu hafi ekki verið samt í kjölfarið. Þú finnur auðvitað ekki betri dæmi um yfirdrifið melódrama og trúðslæti en í Bollywood.

föstudagur, júní 06, 2008

Turninn kom upp í spilunum mínum - rammskakkur og þveröfugur. Kannski ekki skrítið þar sem Hrefna hafði samband við mig stuttu og bauð mér pláss á handritunar námskeiðinu með fjarska litlum fyrirvara. Ég sagði já takk.

Við Auður skelltum okkur á glimmrandi góða sinfóníutónleika í kvöld með Lady & bird - betur þekkt sem Karen Ann og Barði í Bang Gang. Algjör dásemd út í gegn (þótt ég verði að viðurkenna Patreksfjarðarhúmarinn hafi soldið flogið yfir hausinn á mér) og eins gott að þeir verði til á einhvers konar kaupanlegu formi í framtíðinni. Síðan tóku við fastir liðir eins og venjulega; smá hvítvínsdrykkja og spámennska heima hjá mér. Erum nú talsvert vísari um nánustu framtíð og ég einni hvítvínsflösku fátækari.

Ég þarf s.s. að venjast þeirri tilhugsun í snatri að ég er að fara að skrifa leikrit í heila viku. Og ekki leika. Semsagt. Hmmm... Ætli ég reyni ekki að leyfa því að síast inn á leiðinni norður á morgun. Ég hef ekki tíma til að pæla í því þangað til. Á óvart alveg eftir að pakka. Og klára að ganga frá gögnum vegna styrkumsóknar Hugleiks til Bandalagsins. Verð að viðurkenna að áfengið hjálpar við að feykja stressi á brott.

Óver and át.

mánudagur, júní 02, 2008



Maður þarf hvort eð er að endurnýja við og við.

Þessi hugmynd er svo geðveik að ég er ekki frá því að hún sé eins sú snilldarlegasta sem ég hef heyrt. Svona á að snúa vörn í sókn.

Ég held að það búst enginn við því Búrmabjánarnir hætti hinum glæpsamlegu verkum en þeir hafa engu að síður gott af smá andlegu áreiti.