þriðjudagur, mars 31, 2009

Jæja - tónheyrnin búin. Þá minnkar annríkið um eitt. Nú þarf ég bara að klára þessa MA ritgerð, taka stigspróf í píanói og söng og frumsýna eitt leikrit - þá er ég orðin góð.

Ég hef verið tvístígandi eins og alltaf varðandi Bandalagsskólann. Í fyrra gat ég ekki ákveðið hvaða námskeið hentaði mér best - skráði mig næstum því á eitt, hætti við á síðustu sekúntu og skráði mig á hitt. Ætlaði svo að skipta um skoðun en þá var orðið fullt á þetta fyrra og ég á biðlista. Komst svo óvænt inn daginn áður en skólinn byrjaði og í stað þess að sprikla með Rúnari Guðbrands í commedia d'ellarte eins og til stóð reyndi ég að skrifa skrítið leikrit hjá Bjarna Jónssyni.

Það var í fyrra. Núna stendur valið um - surprise! - Rúnar og Bjarna og áþekk námskeið. Þannig að ég stökk til og skráði mig á Rúnars námskeið. Hugsaði sem svo að MA ritgerðin kæmi í veg fyrir öll leikritaskrif langt frameftir vori. Og óx kröfurnar sem námskeiðið hans Bjarna gerði soldið í augum. Ég hef tvisvar áður verið á námskeiði hjá Rúnari og þóttist nokkuð viss um hvað ég væri að fara út í. Fékk síðan tannlæknareikning slengdan framan í mig sem blautri tusku og fannst mér ekki stætt á öðru en að hætta snarlega við. Ég var hvort eð er bara á biðlista. Ég var spurð að því hvort ég hefði fundið fyrir létti við þessa sparnaðarákvörðun en það var sama hvað ég gróf - ekki gat ég fundið fyrir neinu slíku. Ég þóttist þó nokkuð sátt við orðinn hlut.

Líður nú ... tiltölulega stuttur tími og skyndilega virkar Bjarna námskeið ekki svo ómögulegt. Hver segir að ég geti ekki skrifað leikrit í fullri lengd þótt ég hafi aldrei reynt það? Það þýðir ekki að troða marvaða endalaust, bara demba sér í þá djúpu o.s.frv. blablabla. Þannig að ég tók þetta síðasta lausa pláss.

Og hvað haldiði - þarna var léttirinn kominn.

Engin ummæli: