fimmtudagur, nóvember 30, 2006

Jæja - komin með vinnu. Ég var búin að vera á báðum áttum um hvort ég ætti eitthvað að eltast við það - ætlaði bara að einbeita mér að MA ritgerðinni í desember. En þegar maður er beinlínis beðinn um að vinna og peningastaðan er eins og hún er, er erfitt að segja nei. Ég verð s.s. að hjálpa til í Dressmann í Kringlunni eitthvað í desember. Sem er hið besta mál. Það er erfitt að eiga gleði og friðarjól þegar maður er með andateppu og kvíðaröskum sökum fjárhagsáhyggja.

Prófin eru annars að gera út af við mig. Píanóprófið gekk sæmilega - tónlistarsöguprófið ekki svo vel. Ég mæli eindregið með því að fólk sé vel sofið fyrir svona próf. Óstarfhæfur heili nennir ekki að vinna úr þeim upplýsingum sem hann þó á að búa yfir. Blah. Þá eru bara tónleikarnir/söngprófið eftir á mánudaginn. Ég hef ekki miklar áhyggjur af því. Það verður einhvern veginn. Held ég sætti mig bara við það núna að það verður aldrei fullkomið hjá mér. Það skiptir mestu að geta slappað af.

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Ég var að komast að því áðan að ég á að fara í píanópróf næstkomandi þriðjudag.

*Ígg*

Og tónlistarsögupróf á miðvikudaginn og, ef ég er rosa heppin, kontrapunktspróf á fimmtudaginn (þótt kennarinn hafi hálflofað að sleppa jólaprófi). Svo eru það tónleikarnir mánudaginn 4. desember sem - ójá - eru líka próf. Jibbí.

Tónlistarsöguna ætla ég að reyna að bulla mig út úr og kannski verður ekkert próf í kontrapunkti. Tónleikunum get ég varla klúðrað nema ég gleymi textanum og ég kann hann nú þegar.

Píanó hinsvegar ...

Ég man óljóst eftir því að hafa spilað á píanó fyrir fólk á einhverri skólafúnksjón í æsku. Ég man ekki hvernig mér gekk. Mamma var að rifna úr stolti en það er við því að búast þegar 10 ára krakkar viðra hæfileika sína. Ekki að ég hafi verið sérstaklega hæfileikarík. Ég nennti a.m.k. aldrei að æfa mig og þótt ég hafi lært í 3 ár var ég búin að gleyma öllu þegar kom á fullorðinsár. Ég stend því á byrjunarreit algjörlega upp á nýtt. Mér finnst reyndar miklu skemmtilegra að æfa mig núna - hvert lag verður að þraut sem gaman er að leysa og mér var ómögulegt að líta þannig á málið í gamla daga. Málið er bara að það er svo miklu auðveldara að feika mistök í söng - maður lætur bara eins og það hafi átt að vera þannig eða sendir óverðskuldaðar og eitraðar augnörvar í átt að píanistanum. Feilnóta í píanóverki verður aldrei neitt annað en feilnóta.

Ég ætti kannsk að bryðja róandi...

mánudagur, nóvember 20, 2006

Mig vantar sundfélaga.

Samkvæmt ráðleggingum sjúkraþjálfara er mér hollast að fara í sund fjórum sinnum í viku til að halda baki og mjöðm í sæmilegu ásigkomulagi. Það getur bara verið erfitt að halda þeirri rútínu gangandi þegar skítakuldi er úti, ég er þreytt eftir vinnu og skóla, myrkur skollið á um miðjan dag og vikudagurinn endar á erri.

Það var fínt að hafa Nönnu og félaga til að fara með í sund á árum áður þótt sumir hafi verið hændari að heita pottinum en djúpu lauginni. Ég nefni að sjálfsögðu engin nöfn. Úlfhildur er hins vegar ekki ennþá tilbúin til að skella sér til sunds í stórhríð þannig að sennilega er vænlegast fyrir mig að leita á önnur mið.

Ég er bara svo miklu líklegri til að dröslast af stað ef einhver annar þarf að dröslast með mér.

Sund er hin besta skemmtun og gríðarlega heilnæm. Og margfallt ódýrari en bansettar líkamsræktarstöðvarnar. Ef ekkert annað trekkir að er hægt að stunda kroppastútíu í pottunum. Er ekki hægt að lokka einhvern með? Fjórum sinnum í viku? Eða þrisvar og ég fer einu sinni ein. Ég er sveigjanleg í samningum...

föstudagur, nóvember 17, 2006

Ég hef ekki efni á að fara í allsherja yfirhalningu - klippingu og strípur - og tek því þörfina út á grunlausu bloggi. Naflalóarlufsan hefur séð sinn fífil fegurri og ekki mikið að gerast á þeim vígslóðum þessa dagana en jafnveg lík fá að berast vel snyrt til grafar.

Smellið til að sjá hina nýstrípuðu og plokkuðu Naflaló.

Kommentin eru reyndar öll horfin en það verður ekki hjá því komist. Ég nennti ekki að troða inn gamla kommentkerfinu.

Endilega vottið virðingu ykkar.

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Mitt innlegg í umræðuna:

Þeir útlendingar og innflytjendur sem tekst þrauka þessa viðbjóðstíð og kjósa samt að vera hér áfram hafa unnið sér það inn að dveljast á þessu skeri. Og hana nú!

mánudagur, nóvember 13, 2006

Helgi hinna miklu öfga. Ég eyddi bróðurpartinum af laugardeginu í Hugleikshúsinu að aðstoða við stórfelldar aðgerðir. Mikið þrifið, sorterað, hent, fært, smíðað, brotið og hannað. Það fer að verða ógisslega fínt hjá okkur. Ég var svo gjörsamlega eftir mig eftir þessar aðgerðir að ég stóð varla í lappirnar að þeim loknum og eyddi nær öllum sunnudeginum við flatmögun (rétt stóð upp til að fara í sturtu og æfa mig á píanó.)

Úff - það ætlar að verða þrautinni þyngra að komast í gegnum þetta haust. Ég sé heitar gular strendur í hillingum og eygi enga von um að komast á slíkar fyrr en í fyrsta lagi 2012.

Kannski ekki vitlaust að eyða hinum tvennu örlagaríku tímamótum á einni slíkri...

föstudagur, nóvember 03, 2006



Af gefnu tilefni

Nei ég er ekki atvinnulaus. Bara soldið blönk þessa dagana. Þensla og svona. Tannlæknakostnaður og tölvukaup. Lumar einhver á hentugri aukavinnu í desember?