fimmtudagur, apríl 12, 2007

Það er einhver kona sem vinnur í banka í Hafnarfirði sem ræður því alfarið hvenær ég kemst í frí. Ég þekki þessa konu ekki neitt en maðurinn hennar vinnur með eiginmanni samstarfskonu minnar og öll þurfum við að dansa eftir skipulagi þessarar einu hafnfirsku konu. Ef hún vill taka sér þriggja vikna frí í ágúst gerir maðurinn hennar það einnig. Það þýðir að samstarfsmaður hans kemst ekki frá í ágúst og fer í staðinn í júlí - sem og samstarfskona mín. Og þá kemst ég ekki spönn frá rassi. Ætli þessi kona viti hversu víðtæk áhrift sumarleyfisplön hennar hafa? Ætti ég að semja við hana beint?

Annars hef ég ekki miklar áhyggjur af sumarleyfinu þessa dagana. Ég hef verið að narta í frídagana í heilum og hálfum bitum í allan vetur hvort eð er. Núna er ég upptekin við að spígspora um eins og roggin hæna yfir myndbandasigrum mínum og finnst ég gasalega flink að splæsa sundur og saman myndum og hljóði með hjálp einföldustu forrita. Það hvarflar nefnilega að mér, seint og síðarmeir, að þarna er eitthvað praktískt sem ég hef gaman af að gera. Og hversu týpískt - og kvenlegt - það væri af mér að spá ekkert í því og snúa mér aftur að því sem ég geri daglega. Eða kannski er það ekki svo kvenlegt - ekki lengur. Ég var nefnilega ekkert að gantast hérna fyrir neðan þegar ég var að spá í klippinámi. Ég á auðvitað gríðarlega langt í land en ... hví ekki? Af hverju ekki ég frekar en einhver annar? Nú þarf ég bara að snúa mér í nokkra hringi og reyna að stefna í rétta átt án þess að detta á rassinn.

Æi - maður má láta sig dreyma.

3 ummæli:

fangor sagði...

tjah, hefur hún einhvern forkaupsrétt á sumarfríinu? þú tilkynnir hvenær þú ætlar í frí og hún verður að skipuleggja sig samkvæmt því ef þú ert á undan að tilkynna um frí. annað er bara yfirgangur af hennar hálfu.

Ásta sagði...

Ég er greinilega ekki nógu mikil frekja. Það ætti ekki að vera neitt mál að snúa þessu dæmi við. Ég heimta bara mitt frí á ákveðnum tíma og allar rollurnar neyðast til að fylgja mér.

fangor sagði...

jaháts!