fimmtudagur, september 13, 2007

Á dauða mínum átti ég von.

En lús á gamals aldri hefði mig aldrei grunað.

Ég hef ekki hugmynd um hvar ég gæti hafa krælt mér í hana. Kötturinn er hafinn yfir allan grun því ófénaðurinn þrífst víst bara á mannablóði. Nú er það svo að hún smitast bara frá hári til hárs. Ég man ekki hvenær ég var síðast í návígi við annarra manna hár (sem er kannski eins gott því þá eru líkurnar á að ég hafi smitað aðra frekar litlar). Mér dettur helst í huga að einhvern hafi klæjað í hausinn á Kofanum um þarsíðustu helgi. Þar voru allir hoppandi og skoppandi og aldrei að vita hvaða ferðaleg þessi kvikindi hafa farið í.

Eftir að hafa fríkað út eftir miðnætti í nótt og farið í fýluför dágóðan bíltúr um Reykjavík í leit að opnu apóteki er ég miklu rólegri og með plan í höndum. Er búin að þaulgreiða mér og maka ólyfjan í allt hárið og vefja kyrfilega inn í klút. Skal það gerjast til kl. 11 í kvöld. Föt, teppi, púðar komnir í poka eða þvottavél og lús hérmeð gerð brottræk úr mínu lífi.

Mér finnst soldið skondið að ég skuli vera að segja alþjóð frá þessu þegar ég kinkaði bljúg kolli í morgun þar sem apótekarakonan var að útskýra fyrir mér að ég þyrfti að fjarlægja alla bangsa frá barninu.

En svona upplýsingum má maður víst ekki halda út af fyrir sig.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Jæja, Ásta mín, þú fékkst aldrei lús á barnsaldri (ef ég man rétt), þótt hún gengi í skólanum. Nú er bara að bera jukkið í hársvörðinn og fara eftir ráðum sérfræðinganna.
kv. mamma

Spunkhildur sagði...

Ef lús er að ganga á að raka hárið af barninu og bera lút í hársvörðinn, sagði amma.

Það er nú gott að lúsasjampó eru til, annars væru 50% afkomenda minna á geðdeild. Nógu slæmt var það samt.

Siggalára sagði...

Nei, svona upplýsingum má alls ekki þegja yfir.
Þær eru of fyndnar!