fimmtudagur, nóvember 04, 2004

Ég fer í söngtíma klukkan hálf þrjú á fimmtudögum. Þar sem ég stóð flygilinn í stofu 10 áðan og reyndi að kreista þessi hljómfögru háu tóna út úr viðmótsillu barkakýlinu vissi ég og fann að ég yrði aldrei fræg söngkona. Ekki á meðan röddin heimtaði að bresta við ekki einu sinni það háa tóna. Og mér sem hafði gengið svo ágætlega fram að þessu! Ég hafði greinlega verið að vinna á einhverri uppsafnaðir rödd sem var hreinlega uppurin eftir æfingar síðustu vikna. Adios Ópera. Ég sagði það reyndar ekki við kennarann. Eftir einn virkilega sársaukafullan breimatón afsakaði ég mig og sagðist ekkert skilja í þessu. Hún hallaði undir flatt og spurði mig hvort það gæti verið að ég væri mánaðarlega illa fyrir kölluð. Það hlaut að vera! "Já," sagði ég fegin, "ég er á bullandi túr!" Mig grunar að hún hafi verið jafn fegin og ég og hún útskýrði að svona tvo daga í mánuði væri líkaminn í þvílíku uppnámi að það hefði þessi áhrif á röddina. Í Vín þykir það víst góð iðja að gefa söngkonum tveggja daga sjálfvalið frí í mánuði af þessum sökum. Við héldum svo áfram með tímann og ég hætti að hafa áhyggjur af gólinu mínu með þá vitneskju á bakinu að ég yrði skárri næst.
En þar sem ég var að keyra í burtu eftir tímann fór ég að spá í það hvað það er í raun mikið að gerast í líkamanum á þessum tíma fyrst að raddböndin - sem síðast þegar ég gáði voru hvergi nálægt móðulífinu - höndla ekki álagið. Og ég sá fyrir mér konuna sem eldavél með bakaraofn; glansandi fínt yfirborðið með keramikhelluborði eða kannski gashellum en það skiptir ekki máli því undir niðri miðast megnið af apparatinu við að baka fjandans kökuna. Ætli karlmenn séu þá ekki hrærivélar í þessari eldhúslíkamasamlíkingu - hafa eina ákveðna fúnksjón og bera það með sér. Ég var nefnilega að lesa stórmerkilega grein í Nýju Lífi sem Auður var svo elskuleg að gefa mér þar sem kom fram að karlar hafa verið viðmiðið í flestum læknisrannsóknum og meðferðum út síðustu öld og að alltof lítið hafi verið spáð í það að líkamar karla og kvenna bregðast mismandi við áreiti, sjúkdómum og lyfjagjöf. Sama eldhús - tvö mismunandi tæki sjáiði til.

3 ummæli:

Hörður sagði...

það er heldur ekkert auðvelt alltaf að vera kenwood chef...

Auður sagði...

Ég myndi nú aldrei lýsa sjálfri mér sem eldavél.
En prímus kannski? Og þó. Auðveld í meðförum, nytsamleg og fyrirferðarlítil er ekki beint lýsing sem á við mig. En ég get verið góður ferðafélagi fyrir þá sem kunna á mig!

Ásta sagði...

Prímus já? Getur verið hættuleg sjálfri sér og öðrum í flugvélum ... :þ