fimmtudagur, desember 16, 2004

Komin heim frá Bretlandseyjum og langar aldrei til að ferðast aftur. Ekki að þetta hafi verið á nokkurn hátt leiðinleg ferð; þvert á móti. Ég þrammaði um Manchester þvera og endilanga á hverjum degi (þó mest um miðbæinn) og dvaldi í afskaplegu góðu yfirlæti Skottu. En 12 tíma ferðalög eru meira en ég hef úthald og andlega heilsu í. Lest + neðanjarðarlest + rúta + flug + rúta + leigubíll * 30 kílóa taska = löngun til að loka mig inni á heimili mínu um ókomna ævi. Samt - þrátt fyrir smá hnökra á ferðalaginu (ég er þannig að ferðalög verða að vera fullkomlega hnökralaus ef ég á ekki að tapa geði) gekk nú allt upp. Þegar illu lestarmennirnir í London vildu ekki hleypa mér í lestina sem fór til Manchester vegna þess að miðinn minn var eitthvað vitlaust merktur fann ég yndæla miðasölukonu sem reddaði mér í næstu lest (við það tækifæri var tekin sú allar sorglegasta, úldnasta og grátbólgnasta passamynd sem um getur.) Eins þegar ég var á leiðinni heim og sá fram á að vera með alltof mikla yfirvigt gat ég fengið manninn sem stóð fyrir aftan mig í röðinni og var farangurslaus með öllu til að tékka sig inn um leið og ég og bjarga mér frá himinháum gjöldum. Semsagt - allt hið besta mál.

Það sem gerðist svo á milli miklu landaflutninganna var fullkomlega stresslaus yndælistími. Ég vona bara að ég hafi ekki truflað Skottu of mikið við lærdóminn. Ég gekk að reyndar af mér báða fótleggi - a.m.k. þangað til ég fann almennilega strigaskó - en hafði það af að klára jólgjafainnkaupin með öllu. Get nú bara tjillað með bækurnar mínar og prjónana og DVD-ið út mánuðinn og fyrir utan hin hefðbundnu jólatrjáainnkaup sem við pabbi förum alltaf í þarf ég aldrei aftur að hætta mér út í jólaörtröðina. Jibbí jei!

1 ummæli:

fangor sagði...

velkomin heim!