miðvikudagur, desember 22, 2004

Kíkti í gær í heimsókn til Svavars þar sem verið var að leggja loka hönd á hina epísku jólaplötu Hrauns (mark 2). Eftir að hafa fengið nasasjón af því sem í boði verður get ég með sanni sagt að þessi plata verður a) bráðskemmtileg, b) ólík öllum öðrum jólaplötum á markaðnum og c) með allt öðrum brag en platan í fyrra.

Mestur tíminn fór í að taka upp lagið hennar Nönnu (sem helti sér í verkefnið af mikilli innlifun þrátt fyrir afskaplega bágborna heilsu) - bæði stórgóðan söng hennar og sérstakan trompetleik Jóns Geirs. Síðan góluðum við Nanna nokkrar bakraddir við örfá lög. Alveg merkilegt hvað hægt er að koma miklu í verk á ekki lengri tíma en þetta (vorum svona 2 tíma.) Einhvern tímann var uppi sú hugmynd að ég léti ljós mitt skína á þessari plötu en bæði datt mér ekkert almennilegt lag í hug og svo hljóp tíminn frá öllum þannig að ekkert varð úr. Það var svo auðvitað ekki fyrr en ég var á leiðinni heim að mér datt loksins í hug hið fullkomna jólalag og verður það bara að fá að vera með næstu jólaplötu fyrir náð og miskunn.

Sko.

Fyrir næstu plötu finnst mér að Fúlhildur ætti að taka Santa baby með sinni geðþekku rödd - og eftir svona hálfa flösku af sherríi. Þetta lag hefur gjarnan verið framið með einhverri hálf pervertískri babydoll rödd af meyjum á borð við Madonnu. Þannig lifir það a.m.k. í minni minningu. Er ekki mál til komið að gera það almennilega og án vandræðalegrar tvíræðni? Sungið af sauðdrukkinni og drafandi miðaldra kerlingu. "Come and trim my Christmas tree" indeed.

1 ummæli:

fangor sagði...

haha! auðvitað. að okkur skuli ekki hafa dottið þetta í hug fyrr. en það er nú líka ágætt að eiga nokkur í safnið, við jg tökum mary's boy child á næstu og hver veit nema ég taki jólaköttinn? fúlhildur verður auðfúsugestur og kannski kisi nái að klára jólasöguna fyrir næstu jól:þ