þriðjudagur, desember 21, 2004

Afmælisdagurinn var ánægjulegur ef lágstemmdur. Fór í dýrindis mat til bróður míns og mágkonu þar sem dramakóngur heimilisins (Gísli Hrafn) þóttist vera skyndilega logandi hræddur við mig og skemmti fólki með hljóðgjörningi þangað til maturinn byrjaði. Síðan brunaði ég heim og tók til í stofunna svona ef og mundi einhvern mundi kíkja. Auður kíkti til mín en aðrir voru forfallaðir og við fylgdumst með leiðinlegu fólki segja leiðinlega hluti í Survivor. Vinningshafinn hélt uppteknum lygahætti og gekk svo langt að gráta krókódílatárum við hvert tækifæri sem skilaði nettri milljón í vasann. Farið hefur fé betra.

Annars hefur afmælið mitt gjarnar þjónað þeim tilgangi í lífi mínu að minna á að jólin eru að bresta á en einhverra hluta vegna gengur mér ill að muna eftir þeim þessa dagana. Kannski einmitt vegna þess að ég er búin með öll jólagjafainnkaup og hef þau ekki til að stressast yfir. Það eina sem er eftir er að klára nokkra vettlinga, þvo þvott og draga upp gamla gervijólatréð hennar ömmu sem ég fann óvænt í geymslunni síðastliðið sumar.

Og jólalag Baggalúts er víst komið út. Sem þýðir að það er ekki flóafriður í vinnunni þar sem einn starfsmaður er með lagið á repeat og fullu blasti og vei þeim sem reynir að hlusta á eitthvað annað. Þannig að - "The Final Countdown" í íslenskum, jólalegum búning - aftur og aftur og aftur. Baggalútur hefur gert mörg skemmtileg jólalög í gegnum tíðina en af hverju þarf að gera mér þetta? Europe ... *hrollur*

Engin ummæli: