fimmtudagur, janúar 20, 2005

Það er ekki holt fyrir sálina að eyða of miklum tíma á Huga. Sérstaklega ekki á þeim áhugamálum sem kölluð eru tilveran og deiglan. Þar er að finna samsafn af öllu því þröngsýnasta og heimskasta sem íslenska þjóðin hefur alið af sér og upp síðastliðin 20 ár. Stærstur er hópurinn af illa upplýstum stráklingum með hórmónatruflanir og minnamáttakennd sem vita aðeins eitt með vissu í þessu lífi: þeir eru hvítir gagnkynhneigðir karlmenn og sem slíkir er enginn á eftir þeim. Þeir eru seif. Þeir hafa samfélagsfordómana með sér og geta því sett sig ofar kynþáttum, kynhneigðum og kynjum og réttlætt þarmeð tilvist sína. En eitthvað finnst þeim greinlega að sér vegið því raddir þeirra verða sífellt háværarri. Hitler kemur gjarnar inn í umræðuna sem gaur með réttar skoðanir - oftar en ekki í vafið inn í rökleysuflækju þar sem feministum er líkt við nasista. Síðan er málið að tvinna blótsyrðin og apa röflið upp eftir hverjum öðrum og helst nógu hátt. Þykjast þeir þá stórir karlar.
Það sem hræðir mig allra mest er að þessir drengir eiga eftir að vera virkir þegnar í þjóðfélaginu. Þeir eiga eftir að kjósa, vinna á vinnustöðum þar sem útlendingar eru lagðir í einelti, eignast konur til að berja og börn til að klúðra uppeldinu á. Ef ekki eitthvað þaðan af verra.
Einhver staðar er pottur mölbrotinn. Hvort sem ábyrgðin er foreldranna, skólanna, þjóðfélagsins eða internetsins skiptir ekki máli. Við berum öll ábyrgð á hinni harðbrjósta æsku. Það er enginn að halda í tauminn og rassskella þegar við á og það getur aðeins endað með ósköpum. Ég hef engar skyndilausnir á takteinunum en það hlýtur að vera spor í rétt átt að fólk geri sér grein fyrir að eitthvað er rotið og illa lyktandi í þjóðarvitundinni.

8 ummæli:

Spunkhildur sagði...

SAMMÁLA.

Svandís sagði...

Ég hef nú (sem betur fer) ekki lesið þessa pósta á Huga en það fer um mig hrollur. Hve glö(tu)ð er vor æska.

fangor sagði...

heyr heyr! upp með vöndinn og góða siði.

Hr. Svavar sagði...

Sem Hvítur og gagnkynhneigður Karlmaður vil ég örlítið koma mínum meirihlutahóp til varnar.
Ég held að hér sé örlítið verið að alhæfa um hvíta gagnkynhneigða karlmenn út frá breytni örfárra. Það eru fordómar og um leið er grundvelli rökfærslunnar kollvarpað.
Persónulega finnst mér hörmulegt að vera hvítur gagnkynhneigður karlmaður, því andstætt því sem þið trúið, þá þurfum við að þola a.m.k. eftirfarandi fordóma:
Við erum:
Metnaðarfullir
Latir
Hrokafullir
Heimskir
Fordómafullir
Gjörsamlega sneyddir umburðarlyndi
Aldrei kúl eða inni, því við erum hvítir karlar og hvítir karlar geta bara ekki verið svalir
Hæfileikalausir á danssviðinu
Ruddalegir og ókurteisir
Seif
Öruggir um að komast áfram í lífinu
Fullir af heift
Illa upp aldir
Karlrembur
Ofbeldisfullir
Kúgarar
Mögulegir Nauðgarar
Með minnimáttarkennd


Bara svona nokkur dæmi um það sem við "erum"...

Spyrjum okkur frekar hvað það er sem kallar fram þessi viðbrögð hjá ungum drengjum, að þeim finnist feministar vera fasískir. Ætli þeir séu ekki að upplifa að bæði sé vegið að þeim með endalausri karlniðrunarretórík SUMRA feminista og einnig að verið sé að svipta þá mörgum hlutum sem þeir telja til sjálfsagðra mannréttinda, eins og nektarmyndum og kynjahúmor?

Ég veit ekki hvernig konum líður þegar þeim er sagt að þær séu heimskar og bjánalegar og óöruggar og með minnimáttarkennd og óþroskaðar og yfirhöfuð bara fífl. En mér líður ekkert allt of vel þegar þetta dynur á mér.
Konur eru:
Betur siðaðar
Klárari
Betur gefnar
Hugrakkari
Sterkari
Fallegri
Kúlari
Kynþokkafyllri
Stilltari
Betri nemendur
Betri starfsmenn
Betri yfirmenn

Og svo geta þær fjölgað sér án okkar.
Og hvað er eftir handa okkur?
Við erum óþarfir, drasl.

Takk fyrir elskurnar, við ættum kannski bara að smella smá sæði í bolla og setja í frysti fyrir ykkur, flytja á eyðieyju með kassagítar og fullan ruslapoka af klámblöðum og sleppa þessu bara.

:)

Ásta sagði...

Svavar minn - þú heldur þó varla að ég hafi átt við karla almennt. Konur eru ekki undanþegnar heimsku en hins vegar virðist stærsti þröngsýni hópurinn á Huga samanstanda að litlum fúlum strákum. Þeir hafa - a.m.k. í mínum augun - verið líklegri til að vera með orðljótar og særandi yfirlýsingar. Þetta rant mitt var skrifað eftir að hafa lesið greinar á borð við þessa og svörin við henni.

Sigga Lára sagði...

Þegar fordómar beinast gegn manns "tegund" hefur maður, sem einstaklingur, um tvennt að velja.

A) Menn geta farið í fýlu og sjálfsvorkun og kvartað yfir því hvað fordómarnir séu rangir.

B) Menn geta rifið sjálfa sig upp á rassgatinu og afsannað þá með eigin skinni og góðu fordæmi.

Hefði kvenþjóðin tekið fyrri kostinn fyrr á tímum þegar vitað var að hún væri vita gagnslaus (nema til heimilisstarfa og fjölgunar mannkyns), heilalaus og best geymd á bak við eldavélina, þá væri hún ennþá þar. Snarbitur.

(Sagði Íslendingurinn, og saug upp í nefið.)

Nafnlaus sagði...

Hæ allir! Í vikunni sagðist vinur minn ætla að byrja að blogga. Ég er svo óskaplega grænn í þessu, ég vissi eiginlega ekkert hvað hann átti við, en svo sendi hann mér slóðina sína, sem ég heimsótti síðan í morgun. Þegar ég var búinn að lesa allt sem hann hafði skrifað valdi ég að sjá næsta blogg, og svo næsta, og upp komu meðal annars Kínverskar og Íranskar síður, en svo kom allt í einu Íslensk síða, nefninlega þessi. Ég er nú að létta á mér með þetta allt saman vegna þess að í morgun vissi ég ekkert hvað þetta var, núna er ég að senda minn fyrsta póst, þetta er nú magnað. Afsakið, nú sný ég mér að því sem þetta snýst um, það er "comment"

Ég vil kommenta á þennan póst vegna þess að þetta er búið að liggja á mér lengi, þó ég hafi aldrei komið því í verk að skrifa um það, helvítis ruglið á vefum eins og tilverunni, sem er svipuð í efni og undirvefirnir á Huga, tilveran og deiglan. Ekki bara að málefnin eru heimskuleg og heimskulega rædd, heldur er málfar ömurlegt og ílla stafsett, sem fer sérstaklega í mig, en ég er sennilega sér á parti þar :)

Það eru reyndar nokkrar stelpur sem taka þátt í ruglinu, en meirihluti eru strákar. En "hin harðbrjósta æska", og "getur aðeins endað með ósköpum" og "Hve glö(tu)ð er vor æska" er ég ekki endilega sammála þrátt fyrir allt ruglið :) Það gæti svo sem verið, en það gæti allt eins verið að batna. Rasistahugmyndir og kvennakúgun eru gamlar hugmyndir, og síst minna útbreidddar fyrir aðeins nokkrum árum, heldur en nú. Eða hvað? Og af sögunni virðist vera hægt að draga þann lærdóm að eldri kynslóðir álíta nær undantekningalaust að hinar yngri muni ekki standa sig, þær séu of róttækar og frjálslyndar, og að á þær þurfi að beita "vendi" :) En kannski er ástandið heldur ekkert að batna!! Ég er að sjálfsögðu ekki að verja skrifin á tilverunni, þveröfugt reyndar, en ég vildi bara velta þessu upp..


En Hr. Svavar! Auðvitað er hér verið að alhæfa, um æskuna, eða um karlkyns æsku, og alhæft er með aðstoð úrtaks, hópi fárra, sem eru þeir sem skrifa á tilveruna, en það finnst mér eðlilegt, þetta erum við alltaf að gera :) Og já, það eru fordómar, fordómar eru samkvæmt skilgreiningu neikvæð viðhorf (gagnvart hverju sem er), neikvæð viðhorf gegn þeim sem skrifa á tilverunni (eða æskunni í heild), og neikvæðnin á rétt á sér að hluta til að mínu mati :) En hvernig er grundvelli rökfærslunnar kollvarpað? Hvaða rökfærslu?

Jæja, allir vinir í skóginum, kveðja
Benedikt, Kaupmannahöfn.

Nafnlaus sagði...

Já, ég er meira en lítið sammála þér. Fer ekki lengur inn á Huga. Hryllir við tilhugsuninni um hvað fer þar fram. Kíkti á þennan link sem þú bentir á og gafst upp eftir að hafa lesið nokkrar færslur.

Ég veit ekki hvernig það er að vera hvítur karlmaður en get talið upp fordóma sem ég hef lent í, að vera hvít kona í nútímaþjóðfélagi:
Of feit (allar konur eiga að vera tágrannar, þó svo þær hafi fætt slatta af krakkaormum og þá alveg burtséð frá heilsu þeirra, fegurðardýrkunin er að drepa okkur)
Ef ekki feit, lummó því ég versla ekki hátískuföt (þarna kemur líka inní þetta fáránlega lífsgæðakapphlaup sem er að keyra öllu um koll á Íslandi, vinkona mín sem býr í Köben á ekki til orð þegar hún kemur heim yfir hvernig allir eru heilaþvoðir af dýrum hlutum, fötum og bílum)
"Ertu á leiðinni í barneignir" í atvinnuviðtölum, maðurinn minn hefur aldrei verið spurður að þessu
Lægri laun, einfaldlega af því ég er kona
Slæm móðir (því ég hef önnur hugðarefni en bara börnin mín)
Slæm eiginkona (því ég bóna ekki gólfin og heilsa manni mínum með svuntuna stífpressaða framan á mér með nýbakaðar smákökur og varalitað bros og af því hann eldar oftast (burtséð frá því að honum finnst það æðislega gaman að elda, og mér ekki))
Slæmur bílstjóri (bara af því ég er kona er gengið út frá því)
Frekja (ef ég er ekki sammála öðrum, þarna eru konur reyndar oft konum verstar, en karlmenn tala mikið um konur sem frekjur ef þær viðra skoðanir sínar)

Reyndar er ég sammála í stórum dráttum grein sem ég las um daginn þar sem fjallað var um stöðu hvítra, giftra feðra í dag. Þeir eru að færa sig yfir á svæði "ofurkonunnar" þar sem kröfurnar sem lagðar eru á þá eru engan veginn í takt við mannlega getu. Þeir verða að skila sinni vinni 100%, helst að taka framapotið meira en lítið alvarlega, eiga alltaf að vera til taks þó fyrir eiginkonuna og börnin, koma heim og vera mjúkur faðir og eiginmaður og svona mætti lengi telja. Eiginmaður minn fellur undir þennan flokk og ég ber mikla virðingu fyrir honum. En í sömu mund veit ég að hann ber mikla virðingu fyrir mér því við rekum annasamt heimilislíf og með því að vera í 100% háskólanámi gefst lítill tími í annað en skóla og börn.

En á huga... sýnist mér nú bróðurparturinn vera unglingsgrey sem eiga langt í land að ná einhverjum miðlungsþroska. Ég sagði margt fyrir 15 árum síðan sem ég myndi aldrei láta út úr mér í dag. Einfaldlega af því lífið hefur sýnt mér að hlutirnir eru bara sjaldnast svart/hvítir. Ég held í vonina að bróðurpartur þessa fólks sem ég hristi hausinn yfir núna, eigi eftir að sjá ljósið, einsog við hin. En það verða alltaf fordómar, hjá öllum, alls staðar. Við erum alin upp við að það sé eitt sem sé "normið" og allt utan þess ramma sé eitthvað "öðruvísi" (svo er auðvitað mismunandi hve harkalega fólk vill halda í þessi "norm" sín). Með tímanum síar fólk út kannski það einkennilegasta (ég var t.d. alin upp við að samkynhneigð væri dauðasynd, ég held ég geti sagt með nokkurri vissu að samkynhneigð hafi lítið með syndir að gera) svo að sumir sem fá mjög víðsýnt uppeldi geta orðið örgustu rasistar á fullorðinsárum og öfugt. En fyrir mitt leyti, þá forðast ég huga.is ... hef ennþá of mikið af fordómum í garð heimsku til að geta litið þar inn :o)

Kv, Jóhanna Ýr