laugardagur, febrúar 26, 2005


Jibbi jei!

Myndina sendi ég
Powered by Hexia

miðvikudagur, febrúar 23, 2005

Nú stendur til að ég fái heim til mín hornsófa sem foreldrarnir hafa kúrað í fyrir framan sjónvarpið í 10 ár eða svo. Til þess að það gangi upp verð ég að losna við sófasettisæxlið sem breitt hefur úr sér yfir litlu stofuna mína. Það er meira en að segja það því ferlíkið er of vel með farið til þess að maður tími að henda því í Góða Hirðinn og of óþægilegt til að nokkur maður vilji taka við því. En það er allt í lagi - faðir minn er praktískur maður með meiru: "Þetta sófasett er fullkomið fyrir sumarbústað," sagði hann mér áðan í síma, "nú þarf ég bara að kaupa sumarbústað."

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Sigga Lára er vitur kona og ritaði í morgun nokkur viskukorn öðrum til uppfræðslu og ánægju. Sérstaklega er þetta hérna mikið hollráð:

Ef rafmagnsljósið byrjar að loga stanslaust í bílnum manns, borgar sig að fara með hann strax til læknis. Ekki bíða þangað til hann deyr allt í einu, einhvers staðar útí bæ. Það er vesen.

Þó verð ég að viðurkenna að hún hefði mátt komast að þessu aðeins fyrr - t.d. áður en að ég trassaði að fara með bílinn minn í viðgerð þótt ég vissi að pústið væri bilað. Þá hefði bíllinn minn ekki dáið á uppi á Höfða í morgun þegar ég var á leið með Gabríel til dýralæknis og ég ekki lent í 3 tíma ævintýri þar sem komu við sögu tveir Selectstarfsmenn, einn faðir, tveir skoðunarmenn, einn köttur, einn rangnefndur súrefnisskynjari og að minnsta kosti sex öryggi. Ég er nýkomin aftur til vinnu, uppgefin á sál og líkama og hef ekki orku í að tjá mig um alla svaðilförina. Læt mér því nægja, líkt og Sigga Lára, að upplýsa lesendum um þann lærdóm sem draga má af þessu ævintýri:

* ef það heyrast brestir, skellir og skruðningar undir bílnum skal hann strax - og þá meina ég strax - á verkstæði
* bensínstöðvarstarfsmenn hafa ekki hundsvit á bílum en eru allir af vilja gerðir
* það er ekki vitlaust að eiga aukaöryggi í bílnum
* það er heldur ekki vitlaust að þekkja fólk sem kann eitthvað á bíla (eins og t.d. móðurbróðir minn)
* kvenkyns dýralæknar virðast áhugasamari um velferð og líðan katta en karlkyns dýralæknar
* ef þú leggur úti í kanti á Breiðholtsbraut nálægt Suðurlandsvegi borgar sig að vera eins langt frá akreininni og hægt er - þar keyra stórir trukkar sem munar örugglega ekkert um að keyra niður lasnar Toyotur + eigendur
* ættingjar eru gjarnir á að gera grín af þér ef þú hefur aldrei heyrt minnst á "föler" og veist ekki hvernig á að bera það fram eða hvernig orðið beygist.
* það er ekkert til sem heitir "föler" undir bílum. Það er hins vegar til eitthvað sem heitir "súrefnisskynjari" og starfsmenn pústverkstæða gera grín af þér ef þú reynir að klína upplognu nafni á það apparat.

Og nú ætla ég að reyna að vinna smá.

mánudagur, febrúar 21, 2005


Survivor endar og eg er skilin eftir kl. 10 a manudagskvoldi med halfa hvitvinsflosku og enga nettengingu. Er vinir minir ad reyna ad gera mig ad alka?

Myndina sendi ég
Powered by Hexia

Helgin var með þeim menningarlegri sem undirrituð hefur upplifað í háa herrans tíð. Laumaðist inn á opna æfingu á Grjótharðir á Smíðaverkstæðinu á föstudaginn ásamt Auði - og það eftir að rennslið var byrjað. Einnar setningar gagnrýni: Hæfileg löng og raunsæ sýning sem gaf ekkert af sér. Eftir eins-bjórs umræður á 22 - þar sem við sammælgdumst um að vera ósammála - keyrðum við um bæinn í leit að pool-stöðum en fundum ekki. Hins vegar tókst mér að eyðileggja pústið undir bílnum mínum. Gaman að því. Laugardagurinn átti að fara í miklar tilfæringar og sófaskipti en pabbi var bakveikur og hringdi í mig fyrir allar aldir til að segja mér að hann treysti sér ekki í átökin. Það var kannski eins gott því fljótlega eftir það fann ég Gabríel fram á gangi - augljóslega útbitin og ófær um að stíga í aðra framlöppina. Því hófst það verkefni að troða báðum köttum í kassa (Lísa átti eftir að fá árssprautuna) og koma upp á dýraspítala fyrir lokun. Þegar ég loks komst heim rétt gafst tími til að slafra í sig mat og svo þeyttumst við Auður í Háskólabíó að horfa á hina ágætu leiknu heimildarmynd Häxan við undirleik Sinfóníhljómsveitar Íslands. Við fylgdumst einnig með málþinginu sem kom í kjölfarið en laumuðumst út þegar umræður hófust - enda slíkar alltaf eins; misgáfað fólk sem vill ólmt láta ljós sitt skína. Næst tók við sushi-leitin mikla en urðum við að játa okkur sigraðar kl. 7 á laugardagskvöldi gagnvart opnunartíma stórmarkaða. Kvöldið var svo hið rólegasta þar sem við pöntuðum okkur pizzu í sárabætur yfir að fá ekki sushi og horfðum á Survivor myndbandið sem Raggi var búinn að klippa til. Fórum svo niður í bæ - meira af vana en áhuga - a.m.k. hvað mig varðaði. Ég var í því allra minnsta partýstuði sem ég hef upplifað frá því á áramótunum og fékk fyrir náð og miskunn Auðar og Áslaugar að fara heim kl. 2. Var rifin upp úr rúmi löngu áður en ég vaknaði af söngkennara sem vildi hitta mig þremur korterum síðar. Þar sem ég er ekki ennþá búin að læra tæknina að segja nei við söngkennara mætti ég galvösk ef ekki í góðu formi og gaulaði með henni í klukkutíma. Hræddi sennilega líftóruna úr systur Sigguplebba sem var að reyna að æfa sig á saxafón hinum megin við ganginn. Ég var svo eftir mig eftir þessi tilþrif að ég sá mig knúna til að eyða megninu af deginum í alvarlega menningarsnautt sjónvarpsgláp. Klykkti svo út helginni með því að skella mér á baráttu góðs og ills ala. Keanu í formi Constantine. Alveg ágætis mynd en það má víst ekki gleymast að ég hafði líka gaman af The Chronicles of Riddick. Öll þessi ofurmenning tók á, hef sennilega tognað á heila og mun halda mig kyrfilega við raunveruleikaþætti út vikuna. Sem betur fer hefst Survivor: Palau í kvöld.

miðvikudagur, febrúar 16, 2005

Ég fékk þessa saklausu spurningu í póstinum frá Púlsinum í dag. Hvort vil ég bók eða blóm? Ekki veit ég hvað þeim stendur til með þessu - er ekki Valentínusardagurinn liðinn? En hvað um það - þessi fullkomlega óhlutdræga könnun (sem minntist ekki einu orði á að hún væri á vegum Eddu fyrr en maður var búinn að svara) setti fram sína tvo möguleika á sérlega útlitsfagran og smekklega hátt:



Já ég - sjálfur bókmenntafræðingurinn - svaraði "blóm". Þrátt fyrir hina mjög svo lævísu sálfræði sem reynt var að beita á mig af alefli ("Hvort viltu þetta ótrúlega fagra og glansandi bókmenntaverk sem á eftir að valda byltingu í lífi þínu eða þenna óæta arfa með lús?") Ég fékk þennan gamla Kók vs. Pepsí fiðring sem ég fann gjarnan fyrir á Heimssýningunum í gamla daga þar sem ég stefndi alltaf fyrst á Pepsi-áskorunar básinn og valdi glaðhlakkandi Kók bara af því að ég gat fundið bragðmun - ólíkt venjulegu miðaldra kaffidrykkjufólki sem valdi það sem sætara var (Pepsi). Staðreyndin er nú samt sú að ég vil virkilega frekar blóm heldur en bók. Bækur get ég keypt handa mér sjálf - ég er sérvitur á bækur og treysti ekki öðrum til að velja handa mér - topptíu listinn fyrir jól á til að safna ryki uppi í minni hillu. Blóm eru hins vegar alltaf ánægjuleg gjöf og þar sem ég tími ekki að kaupa þau sjálf fæ ég þau varla öðruvísi.

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Leyfist manni ekki að skrifa stöku væliblogg? Í dag er ég þreytt og mér illt í bakinu. Ætli kort í Baðhúsinu sé ekki involverað í næsta skrefi.

Gærdagurinn var lýjandi þar sem útför eins samstarfsmanns mín fór fram. Hann dó langt fyrir aldur fram og það var erfitt að horfa upp á fjölskyldu hans reyna að komast í gegnum athöfnina. Ég var allan tímann að einblína á skreytingarnar í kirkjunni, velta fyrir mér pípuorgelinu, telja spýturnar í grindinni fyrir neðan það (216) - allt annað en hvað þetta var sorgleg stund. Þegar kistan var borin út og niðurbrotin dóttir hans gekk á eftir brotnaði stíflan. Ég var búin að skoða allt í kirkjunni og þaðan sem ég sat gat ég ekki séð munstrið á steinuðu gluggunum.

Pant ekki þurfa að vera viðstödd fleiri útfarir í bráð.

laugardagur, febrúar 05, 2005

I dag er sushi dagur. Var ég að enda við að ákveða. Ég hef aldrei búið til sushi ein áður en það hefur staðið til í langan tíma. Nú langar mig í sushi og sé engan tilgang í því að vera að fresta þessu bara af því að enginn er nálægur sem getur hjálpað mér. Ég á þessi fínu sushi leiðbeiningabók sem Skotta gaf mér í jólagjöf og er ekkert að vanbúnaði. Þannig að ef einhvern langar í sushi í kvöld er bara málið að droppa í heimsókn. Það skal vera tilbúið. Og að sjálfsögð gómsætt.
Ég prjóna, þú prjónar, allir prjóna!

Heimur batnandi fer.

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Ég er s.s. skuldum vafinn aumingi sem lætur sér það lynda að sökkva svo djúpt í fenið að lánadrottnar fórna höndum og kippa tengingum úr sambandi.

Eða ... vesenið við að flytja greiðslu af kreditkorti og í greiðsluþjónustu í bland við vesenið við að flytja greiðslur frá Símanum yfir í OgVodafone skilur eftir sig einhverja skitna 2000 kr. skuld sem veldur mér endalausu hugarangri þessa dagana. Nú er ég búin að tala við þrjár manneskjur hjá OgVodafone, eina hjá Intrum og eina hjá Íslandsbanka og veit ekkert hvort netið mitt verði á sínum stað þegar ég kem heim.

En það er í sjálfu sér aukaatriði. Það sem þessi vinhviða í tebolla hefur kennt mér er að maður er farinn að treysta allt of mikið á bankana. Þeir eiga bara að redda öllu og maður vill helst ekkert vita hvað verður um peningana. Nú er svo komið að það eina sem ég þarf sjálf að borga er matur og bensín. Og einstaka DVD mynd. Eins og þróunin hefur verið er þess víst ekki langt að bíða að maður hættir algjörlega að þurfa að spá í krónurnar. Hagkaup, Esso og Amazon.com munu senda reikningana beint í bankann þar sem glaðbeittur þjónustufulltrúi tæmir síðustu aurana af reikningum. Þar sem ekkert verður eftir þegar allar nausynjar hafa verið taldar saman verður lífið loksins einfalt og sjálfbært - fullkomlega skuldlaust og áhyggjufrítt. Engin kreditkort, engar óþarfa utanlandsferðir, engar skemmtanir þar sem heimildin gerir ekki ráð fyrir þeim. Við líðum í gegnum lífið á þægilegri öldu nauðsynjanna og um leið og við forðumst að sigla í strand ber okkur aldrei að spennandi stöðum og aðstæðum sem gefa krydd í tilveruna.

þriðjudagur, febrúar 01, 2005


Nuverandi skodun min a OgVodafone sem lokadi fyrir adsl i gaerkvoldi, laug thvi ad mer i morgun ad eg vaeri skuldlaus med ollu en segir mig nuna i skulda thegar skrifstofur Intrum eru lokadar og engin leid fyrir mig ad leidretta fyrr en a morgun! Grr
Örbloggfærslu sendi ég
Powered by Hexia