miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Ég er s.s. skuldum vafinn aumingi sem lætur sér það lynda að sökkva svo djúpt í fenið að lánadrottnar fórna höndum og kippa tengingum úr sambandi.

Eða ... vesenið við að flytja greiðslu af kreditkorti og í greiðsluþjónustu í bland við vesenið við að flytja greiðslur frá Símanum yfir í OgVodafone skilur eftir sig einhverja skitna 2000 kr. skuld sem veldur mér endalausu hugarangri þessa dagana. Nú er ég búin að tala við þrjár manneskjur hjá OgVodafone, eina hjá Intrum og eina hjá Íslandsbanka og veit ekkert hvort netið mitt verði á sínum stað þegar ég kem heim.

En það er í sjálfu sér aukaatriði. Það sem þessi vinhviða í tebolla hefur kennt mér er að maður er farinn að treysta allt of mikið á bankana. Þeir eiga bara að redda öllu og maður vill helst ekkert vita hvað verður um peningana. Nú er svo komið að það eina sem ég þarf sjálf að borga er matur og bensín. Og einstaka DVD mynd. Eins og þróunin hefur verið er þess víst ekki langt að bíða að maður hættir algjörlega að þurfa að spá í krónurnar. Hagkaup, Esso og Amazon.com munu senda reikningana beint í bankann þar sem glaðbeittur þjónustufulltrúi tæmir síðustu aurana af reikningum. Þar sem ekkert verður eftir þegar allar nausynjar hafa verið taldar saman verður lífið loksins einfalt og sjálfbært - fullkomlega skuldlaust og áhyggjufrítt. Engin kreditkort, engar óþarfa utanlandsferðir, engar skemmtanir þar sem heimildin gerir ekki ráð fyrir þeim. Við líðum í gegnum lífið á þægilegri öldu nauðsynjanna og um leið og við forðumst að sigla í strand ber okkur aldrei að spennandi stöðum og aðstæðum sem gefa krydd í tilveruna.

1 ummæli:

Spunkhildur sagði...

Mæli eindregið með því að sjálfsþurftarbúskapur og vöruskipti verði tekin upp að nýju. Eða svotil.