miðvikudagur, febrúar 16, 2005

Ég fékk þessa saklausu spurningu í póstinum frá Púlsinum í dag. Hvort vil ég bók eða blóm? Ekki veit ég hvað þeim stendur til með þessu - er ekki Valentínusardagurinn liðinn? En hvað um það - þessi fullkomlega óhlutdræga könnun (sem minntist ekki einu orði á að hún væri á vegum Eddu fyrr en maður var búinn að svara) setti fram sína tvo möguleika á sérlega útlitsfagran og smekklega hátt:



Já ég - sjálfur bókmenntafræðingurinn - svaraði "blóm". Þrátt fyrir hina mjög svo lævísu sálfræði sem reynt var að beita á mig af alefli ("Hvort viltu þetta ótrúlega fagra og glansandi bókmenntaverk sem á eftir að valda byltingu í lífi þínu eða þenna óæta arfa með lús?") Ég fékk þennan gamla Kók vs. Pepsí fiðring sem ég fann gjarnan fyrir á Heimssýningunum í gamla daga þar sem ég stefndi alltaf fyrst á Pepsi-áskorunar básinn og valdi glaðhlakkandi Kók bara af því að ég gat fundið bragðmun - ólíkt venjulegu miðaldra kaffidrykkjufólki sem valdi það sem sætara var (Pepsi). Staðreyndin er nú samt sú að ég vil virkilega frekar blóm heldur en bók. Bækur get ég keypt handa mér sjálf - ég er sérvitur á bækur og treysti ekki öðrum til að velja handa mér - topptíu listinn fyrir jól á til að safna ryki uppi í minni hillu. Blóm eru hins vegar alltaf ánægjuleg gjöf og þar sem ég tími ekki að kaupa þau sjálf fæ ég þau varla öðruvísi.

4 ummæli:

Auður sagði...

Enn á ný ætla ég að hunsa allar óskir þínar; þú færð hvorki blóm frá mér né peysu prjónaða úr mínu eigin hári. Þú færð bara BÆKUR frá mér. Eru vinir ekki settir á þessa jörð til að níðast á þeim?

Gadfly sagði...

Fyrir nú utan það að bækur er hægt að fá lánaðar á bókasafni og hvað mig varðar þá gleður það mig ekkert meira að lesa bók sem ég set upp í hiilu en bók sem ég skila á safnið. Sé hinsvegar ekki fyrir mér að fá afskorin blóm lánuð.

Svandís sagði...

Getur maður ekki bara fengið bæði?

Ásta sagði...

Það fer sennilega eftir því hvort að bókaforlögin starfrækja líka blómaverslanir.