mánudagur, febrúar 21, 2005

Helgin var með þeim menningarlegri sem undirrituð hefur upplifað í háa herrans tíð. Laumaðist inn á opna æfingu á Grjótharðir á Smíðaverkstæðinu á föstudaginn ásamt Auði - og það eftir að rennslið var byrjað. Einnar setningar gagnrýni: Hæfileg löng og raunsæ sýning sem gaf ekkert af sér. Eftir eins-bjórs umræður á 22 - þar sem við sammælgdumst um að vera ósammála - keyrðum við um bæinn í leit að pool-stöðum en fundum ekki. Hins vegar tókst mér að eyðileggja pústið undir bílnum mínum. Gaman að því. Laugardagurinn átti að fara í miklar tilfæringar og sófaskipti en pabbi var bakveikur og hringdi í mig fyrir allar aldir til að segja mér að hann treysti sér ekki í átökin. Það var kannski eins gott því fljótlega eftir það fann ég Gabríel fram á gangi - augljóslega útbitin og ófær um að stíga í aðra framlöppina. Því hófst það verkefni að troða báðum köttum í kassa (Lísa átti eftir að fá árssprautuna) og koma upp á dýraspítala fyrir lokun. Þegar ég loks komst heim rétt gafst tími til að slafra í sig mat og svo þeyttumst við Auður í Háskólabíó að horfa á hina ágætu leiknu heimildarmynd Häxan við undirleik Sinfóníhljómsveitar Íslands. Við fylgdumst einnig með málþinginu sem kom í kjölfarið en laumuðumst út þegar umræður hófust - enda slíkar alltaf eins; misgáfað fólk sem vill ólmt láta ljós sitt skína. Næst tók við sushi-leitin mikla en urðum við að játa okkur sigraðar kl. 7 á laugardagskvöldi gagnvart opnunartíma stórmarkaða. Kvöldið var svo hið rólegasta þar sem við pöntuðum okkur pizzu í sárabætur yfir að fá ekki sushi og horfðum á Survivor myndbandið sem Raggi var búinn að klippa til. Fórum svo niður í bæ - meira af vana en áhuga - a.m.k. hvað mig varðaði. Ég var í því allra minnsta partýstuði sem ég hef upplifað frá því á áramótunum og fékk fyrir náð og miskunn Auðar og Áslaugar að fara heim kl. 2. Var rifin upp úr rúmi löngu áður en ég vaknaði af söngkennara sem vildi hitta mig þremur korterum síðar. Þar sem ég er ekki ennþá búin að læra tæknina að segja nei við söngkennara mætti ég galvösk ef ekki í góðu formi og gaulaði með henni í klukkutíma. Hræddi sennilega líftóruna úr systur Sigguplebba sem var að reyna að æfa sig á saxafón hinum megin við ganginn. Ég var svo eftir mig eftir þessi tilþrif að ég sá mig knúna til að eyða megninu af deginum í alvarlega menningarsnautt sjónvarpsgláp. Klykkti svo út helginni með því að skella mér á baráttu góðs og ills ala. Keanu í formi Constantine. Alveg ágætis mynd en það má víst ekki gleymast að ég hafði líka gaman af The Chronicles of Riddick. Öll þessi ofurmenning tók á, hef sennilega tognað á heila og mun halda mig kyrfilega við raunveruleikaþætti út vikuna. Sem betur fer hefst Survivor: Palau í kvöld.

Engin ummæli: