fimmtudagur, mars 09, 2006

Ég er að tónflytja lag - úr e-moll í es-moll. Spennandi. Það þýðir tipp-ex og reglustika. Kennarinn vill nefnilega að ég flytji "Vísur Vatnsenda-Rósu" í prófinu mínu sem er auðvitað sjálfsagt mál en fær mig til að spá í höfunda. Nú er þetta íslenskt þjóðlag en eitthvað rámaði mig í vesen með höfundarrétt þegar myndin Tár úr steini kom út og 2 mínútna leit síðar er ég komin með þessar upplýsingar í hendurnar: höfundur texta Rósa Guðmundsdóttir, útsetjari Jón Ásgeirsson. Það sem mér finnst svo forvitnilegt er hvernig tregafullt ljóð Rósu hefur verið stytt og tilfært og lagað til - að því er virðist eftir hentugleika Jóns. Frá þessu:

Augað mitt og augað þitt,
og þá fögru steina
mitt er þitt og þitt er mitt,
þú veizt, hvað eg meina.

Trega eg þig manna mest
mædd af tára flóði,
ó, að við hefðum aldrei sést,
elsku vinurinn góði.

Langt er síðan sá eg hann,
sannlega fríður var hann,
allt, sem prýða mátti einn mann,
mest af lýðum bar hann.

Engan leit eg eins og þann
álma hreyti hjarta.
Einn guð veit eg elskaði hann
af öllum reit míns hjarta.

Þó að kali heitur hver,
hylji dali og jökul ber,
steinar tali og allt, hvað er,
aldrei skal eg gleyma þér.

Augað snart er tárum tært,
tryggð í partast mola,
mitt er hjartað sárum sært,
svik er hart að þola.

Beztan veit eg blóma þinn,
blíðu innst í reitum.
Far vel Eyjafjörður minn,
fegri öllum sveitum.

Man eg okkar fyrri fund,
forn þó ástin réni.
Nú er eins og hundur hund
hitti á tófugreni.

Yfir í þetta sem allir geta raulað með Ragnheiði Gröndal í vinsælli auglýsingu:

Augun mín og augun þín,
ó, þá fögru steina.
Mitt er þitt og þitt er mitt,
þú veist hvað ég meina.

Langt er síðan sá ég hann
sannlega fríður var hann.
Allt sem prýða má einn mann
mest af lýðum bar hann.

Þig ég trega manna mest
mædd af táraflóði.
Ó að við hefðum aldrei sést
elsku vinurinn góði.

Þarna er s.s. búið að sleppa 5 erindum og víxla tveimur. Og breyta texta hér og þar - t.d. í fyrsta erindi þannig að rímið fær ekki að halda sér. Einnig kannast ég vel við fimmta erindið en ekki í tengslum við hin 7 - og man ekki lengur hvers vegna. Nú veit ég í raun ekki meira um þetta mál en ég hef skrifað en leikur forvitni á að vita hvers vegna farið hefur verið svona frjálslega með texta Rósu.

5 ummæli:

Varríus sagði...

Smá innpútt.

1. Höfundur lax
eftir því sem ég best veit er þetta svona:
A-kaflinn er þjóðlag, útsett af Jóni Á.
B-kaflinn (langt er síðan...) er eftir Jón Á.

Val á vísum til að syngja er alveg örugglega Jóns Á.

2. Ljóð
Vísur þessar eru eignaðar Rósu Guðmundsdóttur (Vatnsenda Rósu) og varðveittust að ég held um hríð í hinni alræmdu "munnlegu gleymd". Það er því ekkert skrítið þó til séu nokkrar gerðir af þeim. Eins er ég ekki viss um að þær séu hugsaðar frá höfundi sem eitt kvæði.

En vissulega er sá möguleiki fyrir hendi að J.Á hafi hagrætt þeim þegar hann samdi lagið.

Es moll töff tóntegund

Ásta sagði...

Takk kærlega. Einmitt smáatriðin sem mig þyrsti í að vita.

Sigga Lára sagði...

Mig líka! Hafði heyrt slitur úr fullt af vísum, en langaði einmitt bæði að lesa þær allar og vita einmitt þessi smáatriði. Gott framtak, fínar skýringar, nördinn í mér er happí.

Nafnlaus sagði...

Rakst hingað innaf síðu Siggudísar, Erindið þó að kali heitur hver kemur fyrir eitt og sér í gömlu skólaljóðumog var eitt af þessum smákvæðun sem maður lærði alltaf fyrst því þau voru svo stutt:)Heyrði aldei né las hin fyrr en á fuulorðinsárum .Vona að þetta skýri eitthvað.

Nafnlaus sagði...

Eftir því sem ég veit best koma þessi kvæði fyrst út á prenti í bókinni "Saga Natans Ketilssonar og Skáld-Rósu" eftir Brynjúlf Jónsson frá Minna-Núpi (1838-1914). Samkvæmt honum eru þetta allt tækifærisvísur og sumar hafa verið eignaðar allt öðrum.

Svo gæti ég spurt stjúpföður minn, Birgi Sigurðsson leikritaskáld, hann var lengi að stúdera ævi og verk Rósu þegar hann var að skrifa leikrit sitt um Skáld-Rósu.