fimmtudagur, mars 09, 2006

Sá hina marg(ó)rómuðu Óskarsverðlaunamynd Crash í dag. Ekki voru væntingarnar miklar þegar ég settist niður við áhorf í Háskólabíói. Hafði heyrt um sleggju-aðferð myndarinna við boðskapsdreifingu. Ég get með sanni sagt að ekki varð ég fyrir vonbrigðum þar. Tveir tímar af stanslausum fyrirlestrum um að kynþáttahatur sé slæmt og leynist víða. Hvern hefði grunað? Ég varð bara þreytt. Og afskaplega pirruð út í persónurnar sem virtust velflestar lifa lífi sínu óttaslegnar og hysterískar margvafnar í vef dramatískrar íróníu. Aðeins ein persónar virkaði sannfærandi á mig og það var pólitíkusinn, leikinn af Brendan Fraser, sem var allur sympatískur og rólegur á yfirborðinu en var undir niðri aðeins að hugsa um stjórnmálaferil sinn. Ég keypti hann. Því hans sögu var ekki troðið ofan í áhorfendur - hann var meira bakgrunns persóna. Don Cheadle bargaði líka miklu sem bjargað varð.

Ég skil að margir hafi fílað þetta. Ansi margir fíluðu Magnolia sem mér finnst þessi mynd sækja mikið í. Sjálf kunni ég aðeins að meta froskaregnið. Móðir mín sakaði um að kunna ekki að meta myndir með boðskap og sækja aðeins í ódýra og heilalausa afþreyingu á borð við Serenity. Ég er ekki alveg tilbúin til að viðurkenna að hún hafi rétt fyrir sér. Fyrir það fyrst þá mátti alveg finna boðskap í Serenity - það þurfti bara aðeins að grafa eftir honum.

Ég á örugglega eftir að taka nokkra daga í það melta hvað það var sem fór svona í taugarnar á mér. Kannski mér leiðist bara fyrirlestrar. Það er einhvern veginn miklu skemmtilegra að uppgötva boðskapinn upp á eigin spýtur. Að finna fyrir honum frekar en að fá hann mataðann. Good night, and good luck er dæmi um slíka mynd. Ekki gallalaus en góð engu að síður. George Clooney er að segja alls konar hluti um núverandi ástand í Bandaríkjunum - en það er rammað inn í frásögn af McCarthy tímabilinu frekar en sagt beinum orðum. Skilaboðin komast rétta leið en tilfinningin sem situr eftir er ekki sú einhver hafi messað yfir manni.

Niðustaðan: Crash átti ekki skilið Óskarinn. Kannski fimmta sæti - í best lagi.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ég held að svona án gríns að goodnight, good luck sé með leiðinlegri myndum sem ég hef séð á þessu ári.