fimmtudagur, apríl 27, 2006

Nornaspáin mín fyrir daginn í dag segir:

Þú stendur frammi fyrir prófraun sem er erfiðari en þú heldur. Leggðu áherslu á góðan undirbúning.

Eins gott að kunna textann sinn. Nema þarna sé verið að vísa í síðasta hljómfræðitímann sem er eftir klukkutíma...

Já ef þú hefur viðurværi þitt undir steinum er Hugleikur s.s. að frumsýna leikrit í kvöld. Lán í óláni eftir Hrefu Friðriksdóttur. Ég hef rætt um það áður. Er sjálf í litlu en veigamiklu hlutverki. Þannig að: notaleg kvöldstund í Þjóðleikhúskjallranum, kostar kr. 1000 og byrjar kl. 9 (hús opnar hálf 9.) Önnur sýning á sunnudag á sama tíma. Aðeins þessar tvær sýningar. Þrælskemmtilegt allt saman - því get ég lofað.

Þeir sem mæta ekki detta af jólakortalistanum.
Klukkuð af Skottu

1. Which book has made the greatest impact on you? Either as a good read or as a "aha" experience?

Uss - það getur enginn nefnt aðeins eina.

The Murder of Roger Ackroyd eftir Agöthu Christie. Hef aldrei verið jafn sjokkeruð þegar ég las endi og bara vissi ekki að þetta mætti. Var reyndar 12 ára.

1984 eftir George Orwell. Ég var 13 ára þegar ég las hana. Þarf sennilega ekki ferkari útskýringar.

The Beginning Place eftir Ursulu K. Le Guin. Þessi gleypti ég í mig á engri stundu. Man ég kláraði hana á strætóstoppistöð. Ég veit ekki almennilega hvað það var - held að eitthvað í sögunni hafi talað til mín á þeim tíma í lífi mínu (1993.) Í minningunni er hún a.m.k. mjög samofin atburðum frá þeim tíma. Það var reyndar önnur bók hennar sem hafði mikil áhrif á mig í æsku, The Wizard of Earthsea, en vildi nú minnast á einhverjar bækur sem ég las eftir 1986.

Never let me go eftir Kazuo Ishiguro. Hún situr í mér.


2. Which genre do you read most? Novels, crime-stories, biographies, poetry or something else?

Vísindaskáldsögur. Er annars opin fyrir öllu.


3. What was the last book you read?

Sem ég kláraði? Sorcery eftir Terry Pratchett. Er annars að lesa Lovestar eftir Andra Snæ og The Penguin Island eftir Anatole French.


4. Which sex are you?

Gettu þrisvar.


Klukka... Jóhönnu Ýr, Svandísi (ég veit þú ert á lífi), Togga og ... Auði! Ef ske kynni að hún finndi vettvang til að skrifa eitthvað ;)

þriðjudagur, apríl 25, 2006

Allt morandi í menningu.

Dr. Tóta og Hrefna Friðriks eru ofvirkar konur tvær. Tvö verk eftir Tótu voru frumsýnd í apríl - hvort öðru skemmtilegra. Því miður voru aðeins tvær sýningar af Mærþöll en Systur er ennþá verið að sýna í Möguleikhúsinu og svíkur engan. Hrefna, ásamt því að leikstýra Mærþöll, skrifaði, ja, tvíþáttung nokkurn sem heitir Lán í óláni og verður sýndur í Þjóðleikhúskjallaranum næstkomandi fimmtudag og sunnudag. Ég á í stökustu vandræðum með að skilgreina hann - þetta er farsi en þó ekki, gamanleikur með broddi, heilt leikrit í hálfri lengd. Lýsingin á leiklist.is segir það best.


Talandi um menningu... ég dundaði mér við það í morgun að heimsækja heimasíður hinna ýmsu stjórnmálaflokka og reyna að komst til botns í því hvaða skoðun þeir hefðu á (vanda)málum tónlistarskólanna.

D listinni: Það er þrautinni þyngra að finna einfaldan lista yfir helstu stefnumál þeirra. Þó gróf ég upp þessa grein þar sem segir m.a.:

Þegar ákvörðun var tekin að loka á greiðslur til nemenda utan borgarmarkanna þá spöruðust umtalsverðar upphæðir sem nota átti til þess að stytta biðlista nemenda í Reykjavík. Það var ekki gert heldur var sparnaðurinn sem var um 80 milljónir króna tekinn út úr málaflokknum og færður annað.
...
Það er eins og borgaryfirvöld telji að binda þurfi allt í reglugerð og skín þar í gegn tortryggni um að stjórnendum tónlistarskólanna sé yfirhöfuð treystandi. Hins vegar hefur þessi reglugerðarsmíð tekið langan tíma og ljóst að senn er komið að því að einhverjar reglur verði að líta dagsins ljós og gef ég ekkert út hér hver afstaða okkar Sjálfstæðismanna kann að verða í þeim málum


S.s. nóg um blemmeringar á R listann - og á hann það eflaust skilið - en enginn lausn í sjónmáli.


S listinn: Tjáir sig um tónlistarskólana í þessari grein á eftirfarandi hátt:

Borgin hefur haft forgöngu um það þarfa mál að kalla eftir nýjum lögum um tónlistarnám, að ríkið axli ábyrgð á framhaldsnámi í þessari grein eins og öðrum og allt landið verði eitt skólahverfi fyrir tónlistarnema.
...
Sveitarfélögin hafa sameinast um þá kröfu á hendur ríkinu að það taki ábyrgð á framhaldsnámi í tónlist. ... Málið er enn óleyst.
...
Með því að setja aldurshámark er borgin ekki að fækka nemendum sem eiga kost á að stunda tónlistarskólanám, heldur að forgangsraða fjármunum og gefa fleira ungu fólki tækifæri til að læra í tónlistarskólum. Þessi regla sparar því enga peninga. Hún kann að hvetja nemendur til hraðari námsframvindu þegar vitað er að námið verði mun dýrara fyrir einstaklinginn eftir að ákveðnum aldri er náð. Ljóst er að allflestir þeir sem hefja tónlistarskólanám á unga aldri eiga að hafa möguleika á að ljúka framhaldsnámi í tónlist á þessum tíma. Menntaráð borgarinnar getur veitt undanþágu frá þessum aldursmörkum vegna einstakra nemenda að undangengnu áliti fagnefndar.


S.s. skellir allri ábyrgð yfir á ríkið og ætlar greinilega ekki að gera nokkuð fyrr en ríkið breytir sínum lögum. Ég er reyndar sammála því að ríkið eigi að hafa umsjón með tónlistarskólunum frekar en sveitafélögin. Aldurshámarkið er hins vegar jafn afkárlegt og það hefur alltaf verið.


B listinn: býður upp á einfaldan og skipulagðan lista yfir helstu stefnumál þar sem ekki er minnst einu orði á tónlistarskóla. Sennilega finnst þeim það ekki koma þeim við:

B-listinn leggur áherslu á að Reykjavík eflist sem höfuðborg mennta og menningar í landinu; alþjóðleg borg með frjóu, metnaðarfullu listalífi og fjölbreyttu mannlífi.

Gott og blessað og gjörsamlega gagnslaust.


V listinn: Ég fann enga almenna stefnuyfirlýsingu fyrir Reykjavíkurborg. Því síður upplýsingar um skoðun flokksins á tónlistarnámi. Hins vegar er hægt að finna lista yfir almenn baráttumál V listans og hefur hann eftirfarandi að segja um menntamál:

Jafngild tækifæri – Skóli án aðgreiningar - Tryggja ber að allir nemendur eigi jafnan rétt og jafna möguleika á að stunda nám þar sem hæfileikar þeirra njóta sín best. Skólar þurfa að geta mætt þörfum hvers og eins og aflað þekkingar og kunnáttu á ólíkum sviðum. Slíkt verður einungis kleift með öflugu opinberu skólakerfi frá leikskóla og upp í háskóla.

Hvað sem það þýðir. Er til of mikils mælst að stjórnmála flokkar segi á einfaldan hátt hvað þeir í raun meina?

Ekki svara mér.


F listinn: Vill frítt í strætó. Ok - kannski ekki sanngjarnt. Ég leitaði betur og fann þetta. Þarna er samt hvergi minnst á eldri nemendur og greinilegt gert ráð fyrir að allir í tónlistarnámi séu á unglingsaldri. Málefnahandbók F listans.

miðvikudagur, apríl 19, 2006

Ég hef sagt það áður - ég ætti augljóslega að leggja fyrir mig kvikmyndagerð:

Bombay TV

Er farin að finna lykt af vori sem hlýtur að vera ástæðan fyrir þessum kjánaskap. Finn einnig fyrir óvæntri löngun eftir Bailey's sem ég veit ekki alveg hvernig ég á að svala.

miðvikudagur, apríl 12, 2006

Hugleikur situr ekki auðum höndum lengi og því síður hún Dr. Tóta sem er að frumsýna tvö leikrit - eða öllu heldur eitt leikrit og eina óperu - í apríl. Það fyrra heitir "Systur" og verður frumsýnt í Möguleikhúsinu í kvöld og sýnr eitthvað fram í maíl. Áhugasamir geta pantað sér miða hér. Ég kem ekkert nálægt þessari sýningu en efast ekki um að hún verði hin allra besta skemmtun eins og endranær. Þrátt fyrir það ;)

laugardagur, apríl 08, 2006

Glæsilegasta heimasíða sem reist hefur verið í manna minnum depúteraði í dag. Sjá:


Heimasíða Nornabúðarinnar


Ég hef aldrei aðhyllst sérlega flóknar heimasíðuaðgerðir. Dreamweaver smeamweaver :)

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Ég sendi söludeild Terranova póst áðan:

Ég fékk frá ykkur póst sem sendur var á póstlistann ykkar sem hófst svona...

Ágæti Ásta

Súpersól til Salou 18. maí
frá 34.995- 5 daga ferð

o.s.frv.

Ég er ekki líkleg til að vera móttækileg fyrir tilboðum frá fyrirtæki sem gerir ráð fyrir að ég sé karlmaður. Ég er örugglega ekki sú eina. Bara vinsamleg ábending.

Takk fyrir
Ásta


Grrrr...

Stundum framkvæmir maður fullkomlega án þess að hugsa. Stundum er það bara allt í lagi. Ég var að koma úr stigsprófi þar sem æðri heilastarfsemi er bara til trafala og því hefur ekki orðið vart við hana síðan á þriðjudag. Er að velta fyrir mér möguleikunum sem líf sem heimsk ljóska hefur upp á að bjóða.

Hmm... nei - heimskri ljósku hefði þótt sætt að vera kölluð "ágæti."

þriðjudagur, apríl 04, 2006

Aaaaaaaaaaaaaaaaaahvernig í fjandanum fer ég að því að æfa mig í hrynritun?!

Grrr....





Til hamingju með afmælið Siggalára. Taktu myndina ekkert til þín.

mánudagur, apríl 03, 2006

Mötuneytið bauð upp á soðnar kjötbollur með uppstúf í hádeginu. Uppstúf! Því átti ég aldrei að venjast og sagðist kokkurinn hafa lært þetta í sveinsnámi sínu þótt það hafi aldrei verið á boðstólnum í hans æsku frekar en minni. Það er auðvitað ekkert mál að slafra í sig nokkrum kjötbollum með uppstúfi - það verður aldrei verra en soðið kál. Þannig að niðustaða máls er sú að ég södd og sátt og uppfull vangaveltna um hversdagsmat heimilanna. Ætli það sé til það heimili á Íslandi sem hefur ekki boðið upp á kjöt og kál a.m.k einu sinni í mánuði - sérstaklega á áttunda og níunda áratugnum? Nú er þetta sérlega óspennandi matur - en einhver sá heimilislegi sem fyrir finnst. Er það kannski ástæðan fyrir því að fólk heldur áfram að slafra þessu í sig?*

Mér finnst stórmerkilegt hvernig þegnar heilu þjóðanna taka það upp hjá sér að borða allir sömu 6-10 réttina tiltölulega reglulega og með litlum frávikum í uppskriftum. Eins og mamma gerði það - og hún fékk sennilega uppskriftina frá nágrannanum - ef ekki tengdó eða sinni mömmu (við erum hér að sækja aftur til fortíðar því í dag elda að sjálfsögðu 50% karla graut ofan í krakkana.)

Sjáiði sætu sofandi svínin.  Tilbúin til átu. Svo vill þetta ekki borða smá hross!?Ég varð vitni að nákvæmlega sömu tilhneigingu í Bandaríkjunum. Lítið um kjötbollur en þeim mun meira af "svínum í teppi." Ah - Pigs in a blanket - ég sá einhvern sjónvarpsþýðanda koxa á þeim frasa um daginn og kalla sárasaklaust stúlkugrey svínslega fyrir vikið. Þetta eru s.s. litlar pulsur sem er vafið í deig og steiktar í ofni. Ég var, held ég, búin að vera í au pair starfinu í 2 daga þegar ég var skikkuð á "pigs in a blanket" námskeið. Gerði nú samt lítið af því að elda þennan annars ágæta og einfalda rétt. Ég mundi nefnilega aldrei eftir honum. Ég gat ekki tileinkað mér hið bandaríska matlega þjóðarminni. Minn hugur var fullur af steiktum fiski, kótilettum, fiskbúðingi og soðnum kjötbollum. Þannig að krakkaormarnir mínir fengu oftast spagettí.


______________________
*Það er ekki hægt að snæða soðnar kjötbollur - aðeins slafra