mánudagur, apríl 03, 2006

Mötuneytið bauð upp á soðnar kjötbollur með uppstúf í hádeginu. Uppstúf! Því átti ég aldrei að venjast og sagðist kokkurinn hafa lært þetta í sveinsnámi sínu þótt það hafi aldrei verið á boðstólnum í hans æsku frekar en minni. Það er auðvitað ekkert mál að slafra í sig nokkrum kjötbollum með uppstúfi - það verður aldrei verra en soðið kál. Þannig að niðustaða máls er sú að ég södd og sátt og uppfull vangaveltna um hversdagsmat heimilanna. Ætli það sé til það heimili á Íslandi sem hefur ekki boðið upp á kjöt og kál a.m.k einu sinni í mánuði - sérstaklega á áttunda og níunda áratugnum? Nú er þetta sérlega óspennandi matur - en einhver sá heimilislegi sem fyrir finnst. Er það kannski ástæðan fyrir því að fólk heldur áfram að slafra þessu í sig?*

Mér finnst stórmerkilegt hvernig þegnar heilu þjóðanna taka það upp hjá sér að borða allir sömu 6-10 réttina tiltölulega reglulega og með litlum frávikum í uppskriftum. Eins og mamma gerði það - og hún fékk sennilega uppskriftina frá nágrannanum - ef ekki tengdó eða sinni mömmu (við erum hér að sækja aftur til fortíðar því í dag elda að sjálfsögðu 50% karla graut ofan í krakkana.)

Sjáiði sætu sofandi svínin.  Tilbúin til átu. Svo vill þetta ekki borða smá hross!?Ég varð vitni að nákvæmlega sömu tilhneigingu í Bandaríkjunum. Lítið um kjötbollur en þeim mun meira af "svínum í teppi." Ah - Pigs in a blanket - ég sá einhvern sjónvarpsþýðanda koxa á þeim frasa um daginn og kalla sárasaklaust stúlkugrey svínslega fyrir vikið. Þetta eru s.s. litlar pulsur sem er vafið í deig og steiktar í ofni. Ég var, held ég, búin að vera í au pair starfinu í 2 daga þegar ég var skikkuð á "pigs in a blanket" námskeið. Gerði nú samt lítið af því að elda þennan annars ágæta og einfalda rétt. Ég mundi nefnilega aldrei eftir honum. Ég gat ekki tileinkað mér hið bandaríska matlega þjóðarminni. Minn hugur var fullur af steiktum fiski, kótilettum, fiskbúðingi og soðnum kjötbollum. Þannig að krakkaormarnir mínir fengu oftast spagettí.


______________________
*Það er ekki hægt að snæða soðnar kjötbollur - aðeins slafra

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ég sá aldrei þetta pigs in a blanket...enda var ég á heimili þar sem kalkúnninn var húðlaus og humar að minnsta kosti einu sinni í mánuði yfir veiðitímann.

Ásta sagði...

Hvað er að heyra? Bjóstu á algjörlega menningarsnauðu heimili? Hvað með cock au van, maccaroni & cheese, hash browns, peanut butter, jelly og fluff, cold cuts, grilled cheese, magic squares og tonn af kartöflumús með öllu?

fangor sagði...

soðnar kjötbollur með uppstúf?? það þykir mér undarlegt. kartöflur og grænar baunir tilheyrðu hjá mínum ömmum , hef aldrei heyrt af hveitijafningi þar með. ´þetta er sjálfsagt einhver ósiðurinn úr höfuðstaðnum

Ásta sagði...

Hei - ekki bendla höfuðstaðinn við þennan ósið. Hún amma mín - fædd í Viðey og alin upp í vesturbænum - hefði aldrei boðið upp á þetta. Kokkurinn minntist á Hótel Loftleiðir - mig grunar helst að einhver útlendingurinn hafi ráfað inn í eldhúsin og límt saman blaðsíðurnar í íslensku hversdagsuppskriftabókinni.

Nafnlaus sagði...

LOL já, þar er líklega útskýringin komin, því ég segi það sama, hef aldrei heyrt þetta nefnt í sömu andránni.
Aftur á móti er siður á þínu heimili sem ég hef aldrei heyrt um áður, og ólst ég nú upp hjá bakara og það er að setja súkkulaðikrem á piparkökurnar fyrir jólin, en ég hef nú minnst á það áður en vona að ég jafni mig á þessu fyrir jólin 2014.
Mér skilst reyndar að það sé ekki algengt að hafragrautur sé borinn fram með kanilsykri? Það gerði ég allavega alltaf í minni æsku, hvort það var bragð til að koma þessu slími ofan í sig eða var einhver gamall siður hjá minni ætt, get ég ekki svarað.
Algengustu réttirnir á mínu heimili eru aftur á móti mexikósúpa, bakaðar kjúklingabringur með fetaosti, indverskir réttir, bökuð ýsa með sólþurrkuðum tómötum og ólívum já og auðvitað hakk og spagettí. Ég er hætt að elda soðið kjötfars með hvítkáli, veit ekki af hverju.
Svona hefur þetta breyst...
JYJ

Ásta sagði...

Já - ég er nokkuð ánægð með þróunina í íslensku mataræði. Held að þynglyndi 20. aldar hafi nær eingöngu stafað af of miklu soðnu hvítkáli.

Mömmu finnst hafragrautur vondur og því var hann aldrei eldaður heima - hefði samt örugglega verið skárri með kanil. Þetta með lifrarpylsuna kom a.m.k. flatt upp á mig þegar ég komst til vits og ára.

Og piparkökurnar eru ekki með neinu kremi - þetta er pjúra Nóa Síríus konsúm brætt niður og penslað ástúðlega á. Skil ekki lógíkina sem segir að flórsykur+vatn sé ákjósanlegra bragðefni.