þriðjudagur, október 03, 2006

Hugleikur hefur ofvirkni vetrarins með Hinu mánaðarlega í Þjóðleikhúskjallaranum í kvöld kl. 9. Sex nýir einþáttungar verða sýndir að þessu sinni og sjálf verð ég í tveimur þeirra. Er reyndar hálf ljóskuleg í báðum hlutverkum og fer að óttast að vera typecast en allt er nú skárra en eilífðar móður hlutverkið.

Það fer reyndar að verða deginum ljósara að það gengur ekki upp að reyna að stunda fullt söng- og píanónám, skrifa ritgerð og leika í leikritum á sama tíma. Eitthvað verður að fá að gefa sig og ég er ansi hrædd um það verði að vera leiklistin. Sem er bölvað því það er gaman!

Sem betur fer er lítið að gera í vinnunni þessa dagana. Ríkisstjórnin hefur sett stopp á allar framkvæmdir næsta árs. Eða svo gott sem. M.ö.o. ef stofnanaklósett bila megum við stoppa í gatið en alls ekki kaupa ný. Þetta ku vera lykillinn að stöðvun þenslu í þjóðfélaginu. Frestun viðhalds þýðir reyndar bara að skemmdir verða meiri þegar við fáum loks að gera við, framkvæmdirnar dýrari og hálf þjóðin í fýlu út í okkur en - hey - lítur vel út á pappírum. Aðeins Þjóðleikhúsið (sem fékk sér fjárveitingu) og hesthúsin hans Guðna (ekki á okkar könnu) virðast undanþegin.

En nóg af því röfli. Það eru brýnni mál sem krefjast athygli minnar.

Ég held að ég sé búin að týna litlu kisunni minni fyrir fullt og allt. Hún týndist fyrir tæpum þremur vikum. Hljóp út eitt kvöldið þegar ég var að kalla á Gabríel og hefur ekki sést síðan. Ég var að vonast til þess að hún skilaði sér eftir viku því hún hefur gert það tvisvar áður en þetta er fulllangur tími.

Ef einhver á Háteigsvegssvæðinu verður var við þessa dauðhræddu kisu má hafa samband við mig. Hún er með drapplitaða hálsól með grænu merki og heitir Lísa:



1 ummæli:

fangor sagði...

æ er hún alveg horfin greyið. það var nú ekki gott að heyra.