föstudagur, október 31, 2008



Leikfélagið Hugleikur frumsýnir stuttverkadagskrána „Ó, þessi tæri einfaldleiki“, föstudaginn 31. október kl. 20.00 í Listasafni Reykjavíkur. Frumsýnd verða níu ný stuttverk sem öll eiga það sammerkt að hafa afmæli sem þema. Sýningin markar þannig upphafið á afmælisári Hugleiks sem fagnar 25 ára starfsafmæli sínu leikárið 2008-2009. Leikstjórn stuttverkanna er í höndum félagsmanna, en tónlistarflutningi stjórnar Gunnar Ben. Aðeins verða þrjár sýningar á dagskránni og eru seinni sýningarnar tvær laugardaginn 1. nóvember og sunnudaginn 2. nóvember, kl. 20.00 bæði kvöldin.

Verkin sem sýnd verða með smá umsögn um innihaldið:

Amma Lída eftir Árna Friðriksson í leikstjórn Harðar S. Dan
„Það er ekki tekið út með sældinni að vera amma."

Afmæli eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur í leikstjórn Sigríðar Birnu Valsdóttur
„Hversu langt er tilhlýðilegt að ganga? Til dæmis í landkynningu, morgunfegurð eða afmælisveislum? Fólk brallar ýmislegt á fyrrverandi strætóstoppum klukkan níu á sunnudagsmorgnum."

Á bekknum eftir Þórarin Stefánsson í leikstjórn Árna Hjartarsonar

„Að garðbekkjum frátöldum eru varla til betri staðir til að kynnast ókunnugum en afmælisveislur. Það jafnast fátt á við afmæli til að brjóta ísinn, enda eigum við það öll sameiginlegt að eiga reglulega afmæli. Er þá ekki upplagt að bjóða ókunnugum líka? Jafnvel í annarra veislur?"

Ágætt eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur í leikstjórn höfundar
„Flest er ágætt. Þrátt fyrir allt og þegar allt kemur til alls."

Epík eftir Hörð S. Dan í leikstjórn Árna Friðrikssonar
„Hverju trúir þú? Á hvað trúir þú? Er nýr guð kominn til sögunnar? Hér eru trúarbrögð í tafli."

Maður og kona eftir Hörð S. Dan í leikstjórn Ragnhildar Sigurðardóttur
„Hvað ómar í hugum manns og konu? Hvað drífur samskipti þeirra áfram? Hver er að fara og hver er að koma? Verk um tvær manneskjur sem einhvern veginn eru alltaf á á leið í sitt hvora áttina."

Notaleg kvöldstund eftir Þórunni Guðmundsdóttur í leikstjórn Ástu Gísladóttur
„Hversu langt þarf maður að ganga til að eiga eina notalega kvöldstund? Stundum er eina ráðið að hverfa inn í rómantík kvikmyndanna."

Ár og öld eftir Þórunni Guðmundsdóttur í leikstjórn Þorgeirs Tryggvasonar
„Eftir langan og góðan svefn getur verið bæði gott og nauðsynlegt að leggja sig aftur og sofa lengur."

Þema eftir Hrefnu Friðriksdóttur í leikstjórn Júlíu Hannam
„Er það klisjukennt að eiga afmæli - eða að halda upp á það - eða að segja frá því í afmælinu að maður sé að halda upp á það að eiga afmæli eða...?"

Miðapantanir á hugleikur.is

sunnudagur, október 26, 2008

Afleiðingar kreppunnar halda áfram að koma í ljós og sér örugglega ekki fyrir endann á því.

Hin hagsýna húsmóðir fór í búð um daginn og keypti til heimilisins. Ákvað í sparnaðarkasti að fjárfesta nú í maís í stað þess að kaupa örbylgjupopp. Einu sinni þótti það alveg nógu gott og hví ekki að taka upp gamla siði? Það er í tísku.

Poppaði síðan heilan pott eftir hálfgleymdri uppskrift og tókst fullkomlega. Trixið er að setja einn fullan lítinn kaffibolla af maís - það dugar í fullan pott af poppuðu poppi. Gómsætt og tilvalið.

Liðu nú nokkrir dagar og ég ákvað að endurtaka leikinn. Var orðinn slíkur töffari í þessari aðgerð að ég þóttist getta vippað réttu magni fram úr erminni án þess að brúka kaffibollann. Hellti beint í pottinn þar til mér þóttist vera komið botnfylli. Kannski bæta aðeins meira á. Síðan var poppað. Vel uppfyrir brúnina á pottinum og popp út um allt eldhús. Í tilraun til að bjarga því sem bjargað varð reyndi ég að hella úr yfirfullum pottinum í skál án þess að allt færi út um allt. Var því ekki passa á mér útlimina og skellti hægri handleggnum undir pottinn.

Ái.

Hlaut prýðisstórt brunasár að launum og lét mér töffaraskapinn að kenningu verða. Kom aðeins helmingnum af poppinu niður. Daginn eftir var ég kominn með myndarlega blöðru á miðjum brunablettinum sem var ekki lengi að springa svo á það fór plástur. Kannski ekki alveg nógu stór fyrir allan brunablettinn en náði yfir blöðruna. Síðan hugsaði ég ekki um það í svona sólarhring.

Varð litið á plásturinn í dag og var klárlega kominn tími til að skipta. Vandast nú málið. Brunasárið - bæði það sem var blaðra og roði - var límt við plásturinn og fylgi honum af. Opið svöðusár á handlegg og engan á ég sjúkrakassann. Ég gerði það sem var sennilega skynsamlegast í stöðunni, vafði handleggnum laust inn í klósettpappír og brunaði út í apótek. Fékk þar sérhannaðann brunaplástur (ca. 750 kr. stykkið) og aðstoð lyfjakonunnar við að setja hann á. Og er bara hálfónýt. Sennilega var þetta miklu meira sár en ég gerð mér grein fyrir og ég hefði þurft að búa betur um þetta til að byrja með. Hvert einasta handtak er sársaukafullt og ég veigra mér við öllu átaki. Það er heldur ekkert sérstaklega þægilegt að blogga. Brunaplásturinn er svakalega sci-fi - rúðustrikaður, gelfylltur og gegnsær - þannig að hægt er að fylgjast með sárinu gróa frumu fyrir frumu. Öll stórvirki verða að fá að vera smávirki fyrst um sinn sem er bölvað þegar maður þarf að vera að undirbúa leikrit og djöflast í leikmyndasmíð og hvaðeina.

Og allt fjandans kreppunni að kenna.

mánudagur, október 20, 2008

Íslendingar eru ekkert ef ekki tækifærissinnar. Síðustu vikur hefur mikil reiði og depurð gripið þjóðina - skiljanlega - og eins til að vega uppi á móti því hefur þorri hennar skellt sér í nostalgíukast. Skyndilega dugar ekkert nema soðinn fiskur í hádeginu með kartöflum, smjöri og hamsatólg og prjónaskapur til dægrarstyttingar. Ekkert sjónvarp á fimmtudögum og einfaldleikinn skal ráða í lífsstíl.

Afneitun er s.s. á óeðilega háu stigi. Fólk hugsar með heimilislegri hlýju til fortíðarinnar og man aðeins það besta og notalegasta. Ég stóð mig sjálfa að finna gömlu dagana hríslast um kroppinn þegar ég kíkti inn í Pennann fyrr í dag og sá stóran rekka með öllum útkomnu Ísfólksbókunum - alveg eins og í gamla daga.

Málið er bara að ég á allar þessar bækur og hef marglesið. Þær duga ekki lengur. Nostalgían felst aðeins í smá hamingjukasti en nær aldrei að vera viðvarandi ástandi. Fiskur í hádeginu er fínn endrum og eins en þess á milli á fólk eftir að ætlast til þess að geta haft aðgang að öllu hinu sem það er búið að venjast og hugsar ekki út í að það gæti verið án. Það er ekkert mál að fórna sjónvarpi á fimmtudögum þegar allir eru hvort eð er að dánlóda. Við sem upplifðum alla þá hluti sem sitja nú ljómaðir fortíðarglansa vorum ekki svo uppnumin af þeim þegar þeir tilheyrðu nútímanum og við tókum pizzum, Stöð 2 og betri samgöngum fagnandi hendi.

Nú veit enginn hverstu slæmt ástandið getur orðið. Þurfa Íslendingar bara að verða aðeins hagsýnari í innkaupum eða erum við að tala stórfelldan niðurskurð á lífsstíl? Missum við símana, internetið, bílana, sumarfríið, veglegar jólagjafir, barferðir, nýja skó, betri vetrarkápu, námskeið og líkamræktarkort? Að maður tali nú ekki um allt hitt sem ég hef aldrei leyft mér? Fortíðin er nefnilega eins og hvert annað þriðja heims land: áhugavert heim að sækja - en mundum við virkilega vilja búa þar?

föstudagur, október 17, 2008

Það gerðist heilmikið og skemmtilegt á æfingunni í gær. Kannski vegna þess að við bættum auka elementi inn í leikritið. Kannski vegna þess að ég kippti öllum ljósunum úr samband og notaðist bara við tvo gamla lampa til að lýsa upp sviðið. Segi ég ekki meira um það - forvitið fólk verður bara að koma á sýninguna eftir tvær vikur ;)

Einhverra hluta vegna fannst okkur þetta vera hinn ákjósanlegasti tími til að taka myndir. Símamyndir í myrkvuðu herbergi með takmarkaðri lýsingu eiga alltaf á brattann að sækja. Þessar hafa verið gífurlega fótósjoppaðar en eru þó ekki betri en svo að saman gera þær kannski eina almennilega mynd.

Leikararnir - Gummi, Rósa og Guðrún



miðvikudagur, október 15, 2008

Við Auður settumst niður fyrir stuttu og höfðum notalegt vídeókvöld. Kíktum þar á hina finnsku, þöglu, svarthvítu, natúralisma mynd Juha frá árin 1999 - mikil skemmtun. Og svo frönsku söngvamyndina Les Chansons d'amour - eða Ástarsöngvar - frá árinu 2007 (sjá dvd link hér til hægri) sem ég hefði verslað á Amazon í einhverju bríeríi í haust (að sjálfsögðu vel f.K - fyrir Kreppu).

Okkur fannst hún reyndar frekar ruglingsleg í byrjun og aðalpersónan pirrandi en svo vann hún á. Ég kíkti á myndin aftur um helgina - vildi sjá hvort hún virkaði betur nú þegar ég vissi alla söguna fyrir fram. Hún gerði það - ætlan persónanna kannski ekki svo mikið skýrari en mun ljósara hvers vegna svo var. Hún ku líka vera að hluta til byggð á atburðum í lífi leikstjórans og höfundar tónlistar sem eru gamlir vinir. Ekki vildi samt betur til en svo að ég fékk myndina gjörsamlega á heilann - sérstaklega eftir að ég komst að því að soundtrackið er hið ákjósanlegasta undirspil við lærdóminn. Ljúfir tónar - gjörsamlega óskiljanlegur texti (fyrir frönskufatlað fólk):

þriðjudagur, október 07, 2008

Það eru svokallaðir mánudagstónleikar uppi í Tónó næstkomandi mánudag kl. 19:30. Mér var sagt að smala fólki á þá - þannig að allir eru velkomnir. Ég mun syngja þar tvö angurvær íslensk lög og er annað þeirra mér sérstaklega hugleikið á þessum síðustu og verstu. Á æfingu í gær fannst kennara ég vera að ná að lifa mig inn í textann og spurði um inspirasjón - ég sagði henni að ég hefði sett mig í spor Geirs H. Haarde að ákalla íslensku þjóðina.

Það smellpassar - sjá:

Ektamakinn elskulegi

Ektamakinn elskulegi
útvalinn á gleðidegi
kær skal mér, en öðrum eigi
ann eg meðan lifir sá.

Þegar vetrarkuldinn kemur,
krapahríðum yfir lemur,
æskilega okkur semur,
inni í hreiðri kúrum þá.

Sumarblíða sefar mæði,
sofum við þá úti bæði,
og þó á vetrum vart sé fæði,
vöktum það sem frekast má.

Í sparsemi af því neytum,
um annarra ei ríkdóm skeytum,
unum hag og hvergi breytum,
hagkvæm þykir byggðin smá.

Skorti brauðs ei skulum kvíða,
skaparinn vill það ekki líða;
dreifir hann um foldu fríða
fræi því, er seðjumst á.



Það væri skemmtilegt verkefni fyrir fyrsta árs bókmenntafræðinema að rýna í línur ljóðsins og skýra í ítarlegu máli (dreifir hann um foldu fríða/fræði því er seðjumst ár = þarna er verið að minna á þær auðlindir sem landið býr yfir og hvetja íslensku þjóðina til að nýta þær til hins ýtrasta, það sé vilji Guðs, gæti einnig átt við um fjallagrös). Ég treysti hins vegar á túlkunargetu lesenda.

Bókmenntafræðingar sumir hverjir hafa einnig kosið að túlka textann sem ástaróð Haarde til Bubba kóngs. Hann er eignaður Hallgrími Péturssyni en ku víst vera eftir Séra Björn Halldórsson og saminn á 18. öld. Sannspár maður þar.

Lagið er hins veger nýlegt og eftir Tryggva M. Baldvinsson sem gefur upp tóndæmi á heimasíðu sinni. Svona ef fólk skyldi vilja raula með yfir kornflexinu.