sunnudagur, október 26, 2008

Afleiðingar kreppunnar halda áfram að koma í ljós og sér örugglega ekki fyrir endann á því.

Hin hagsýna húsmóðir fór í búð um daginn og keypti til heimilisins. Ákvað í sparnaðarkasti að fjárfesta nú í maís í stað þess að kaupa örbylgjupopp. Einu sinni þótti það alveg nógu gott og hví ekki að taka upp gamla siði? Það er í tísku.

Poppaði síðan heilan pott eftir hálfgleymdri uppskrift og tókst fullkomlega. Trixið er að setja einn fullan lítinn kaffibolla af maís - það dugar í fullan pott af poppuðu poppi. Gómsætt og tilvalið.

Liðu nú nokkrir dagar og ég ákvað að endurtaka leikinn. Var orðinn slíkur töffari í þessari aðgerð að ég þóttist getta vippað réttu magni fram úr erminni án þess að brúka kaffibollann. Hellti beint í pottinn þar til mér þóttist vera komið botnfylli. Kannski bæta aðeins meira á. Síðan var poppað. Vel uppfyrir brúnina á pottinum og popp út um allt eldhús. Í tilraun til að bjarga því sem bjargað varð reyndi ég að hella úr yfirfullum pottinum í skál án þess að allt færi út um allt. Var því ekki passa á mér útlimina og skellti hægri handleggnum undir pottinn.

Ái.

Hlaut prýðisstórt brunasár að launum og lét mér töffaraskapinn að kenningu verða. Kom aðeins helmingnum af poppinu niður. Daginn eftir var ég kominn með myndarlega blöðru á miðjum brunablettinum sem var ekki lengi að springa svo á það fór plástur. Kannski ekki alveg nógu stór fyrir allan brunablettinn en náði yfir blöðruna. Síðan hugsaði ég ekki um það í svona sólarhring.

Varð litið á plásturinn í dag og var klárlega kominn tími til að skipta. Vandast nú málið. Brunasárið - bæði það sem var blaðra og roði - var límt við plásturinn og fylgi honum af. Opið svöðusár á handlegg og engan á ég sjúkrakassann. Ég gerði það sem var sennilega skynsamlegast í stöðunni, vafði handleggnum laust inn í klósettpappír og brunaði út í apótek. Fékk þar sérhannaðann brunaplástur (ca. 750 kr. stykkið) og aðstoð lyfjakonunnar við að setja hann á. Og er bara hálfónýt. Sennilega var þetta miklu meira sár en ég gerð mér grein fyrir og ég hefði þurft að búa betur um þetta til að byrja með. Hvert einasta handtak er sársaukafullt og ég veigra mér við öllu átaki. Það er heldur ekkert sérstaklega þægilegt að blogga. Brunaplásturinn er svakalega sci-fi - rúðustrikaður, gelfylltur og gegnsær - þannig að hægt er að fylgjast með sárinu gróa frumu fyrir frumu. Öll stórvirki verða að fá að vera smávirki fyrst um sinn sem er bölvað þegar maður þarf að vera að undirbúa leikrit og djöflast í leikmyndasmíð og hvaðeina.

Og allt fjandans kreppunni að kenna.

Engin ummæli: