mánudagur, október 20, 2008

Íslendingar eru ekkert ef ekki tækifærissinnar. Síðustu vikur hefur mikil reiði og depurð gripið þjóðina - skiljanlega - og eins til að vega uppi á móti því hefur þorri hennar skellt sér í nostalgíukast. Skyndilega dugar ekkert nema soðinn fiskur í hádeginu með kartöflum, smjöri og hamsatólg og prjónaskapur til dægrarstyttingar. Ekkert sjónvarp á fimmtudögum og einfaldleikinn skal ráða í lífsstíl.

Afneitun er s.s. á óeðilega háu stigi. Fólk hugsar með heimilislegri hlýju til fortíðarinnar og man aðeins það besta og notalegasta. Ég stóð mig sjálfa að finna gömlu dagana hríslast um kroppinn þegar ég kíkti inn í Pennann fyrr í dag og sá stóran rekka með öllum útkomnu Ísfólksbókunum - alveg eins og í gamla daga.

Málið er bara að ég á allar þessar bækur og hef marglesið. Þær duga ekki lengur. Nostalgían felst aðeins í smá hamingjukasti en nær aldrei að vera viðvarandi ástandi. Fiskur í hádeginu er fínn endrum og eins en þess á milli á fólk eftir að ætlast til þess að geta haft aðgang að öllu hinu sem það er búið að venjast og hugsar ekki út í að það gæti verið án. Það er ekkert mál að fórna sjónvarpi á fimmtudögum þegar allir eru hvort eð er að dánlóda. Við sem upplifðum alla þá hluti sem sitja nú ljómaðir fortíðarglansa vorum ekki svo uppnumin af þeim þegar þeir tilheyrðu nútímanum og við tókum pizzum, Stöð 2 og betri samgöngum fagnandi hendi.

Nú veit enginn hverstu slæmt ástandið getur orðið. Þurfa Íslendingar bara að verða aðeins hagsýnari í innkaupum eða erum við að tala stórfelldan niðurskurð á lífsstíl? Missum við símana, internetið, bílana, sumarfríið, veglegar jólagjafir, barferðir, nýja skó, betri vetrarkápu, námskeið og líkamræktarkort? Að maður tali nú ekki um allt hitt sem ég hef aldrei leyft mér? Fortíðin er nefnilega eins og hvert annað þriðja heims land: áhugavert heim að sækja - en mundum við virkilega vilja búa þar?

Engin ummæli: