föstudagur, október 31, 2008
Leikfélagið Hugleikur frumsýnir stuttverkadagskrána „Ó, þessi tæri einfaldleiki“, föstudaginn 31. október kl. 20.00 í Listasafni Reykjavíkur. Frumsýnd verða níu ný stuttverk sem öll eiga það sammerkt að hafa afmæli sem þema. Sýningin markar þannig upphafið á afmælisári Hugleiks sem fagnar 25 ára starfsafmæli sínu leikárið 2008-2009. Leikstjórn stuttverkanna er í höndum félagsmanna, en tónlistarflutningi stjórnar Gunnar Ben. Aðeins verða þrjár sýningar á dagskránni og eru seinni sýningarnar tvær laugardaginn 1. nóvember og sunnudaginn 2. nóvember, kl. 20.00 bæði kvöldin.
Verkin sem sýnd verða með smá umsögn um innihaldið:
Amma Lída eftir Árna Friðriksson í leikstjórn Harðar S. Dan
„Það er ekki tekið út með sældinni að vera amma."
Afmæli eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur í leikstjórn Sigríðar Birnu Valsdóttur
„Hversu langt er tilhlýðilegt að ganga? Til dæmis í landkynningu, morgunfegurð eða afmælisveislum? Fólk brallar ýmislegt á fyrrverandi strætóstoppum klukkan níu á sunnudagsmorgnum."
Á bekknum eftir Þórarin Stefánsson í leikstjórn Árna Hjartarsonar
„Að garðbekkjum frátöldum eru varla til betri staðir til að kynnast ókunnugum en afmælisveislur. Það jafnast fátt á við afmæli til að brjóta ísinn, enda eigum við það öll sameiginlegt að eiga reglulega afmæli. Er þá ekki upplagt að bjóða ókunnugum líka? Jafnvel í annarra veislur?"
Ágætt eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur í leikstjórn höfundar
„Flest er ágætt. Þrátt fyrir allt og þegar allt kemur til alls."
Epík eftir Hörð S. Dan í leikstjórn Árna Friðrikssonar
„Hverju trúir þú? Á hvað trúir þú? Er nýr guð kominn til sögunnar? Hér eru trúarbrögð í tafli."
Maður og kona eftir Hörð S. Dan í leikstjórn Ragnhildar Sigurðardóttur
„Hvað ómar í hugum manns og konu? Hvað drífur samskipti þeirra áfram? Hver er að fara og hver er að koma? Verk um tvær manneskjur sem einhvern veginn eru alltaf á á leið í sitt hvora áttina."
Notaleg kvöldstund eftir Þórunni Guðmundsdóttur í leikstjórn Ástu Gísladóttur
„Hversu langt þarf maður að ganga til að eiga eina notalega kvöldstund? Stundum er eina ráðið að hverfa inn í rómantík kvikmyndanna."
Ár og öld eftir Þórunni Guðmundsdóttur í leikstjórn Þorgeirs Tryggvasonar
„Eftir langan og góðan svefn getur verið bæði gott og nauðsynlegt að leggja sig aftur og sofa lengur."
Þema eftir Hrefnu Friðriksdóttur í leikstjórn Júlíu Hannam
„Er það klisjukennt að eiga afmæli - eða að halda upp á það - eða að segja frá því í afmælinu að maður sé að halda upp á það að eiga afmæli eða...?"
Miðapantanir á hugleikur.is
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli