miðvikudagur, júní 02, 2004

Hvað er þetta - fólk rýkur ekki upp til að handa og fóta þegar tækifæri til að fara í bíó með MÉR býðst? Ég er svo aldeilis...

Var að reyna að muna eftir öllum tilkippilegu vinum mínum sem ég gæti hugsanlega togað með mér. Komast að því að alltof margir þeirra eru í föstu sambandi - og fast samband þýðir parið vill gera hluti - eins og að fara í bíó - saman.

Bleh. Á þessum tímapunkti ætla ég að leyfa mér að þusa yfir óhóflegri parahyggju (án þess að hafa nokkrar vísbendingar um að vinir mínir hafi hagað sér á þann hátt og er þessu ranti á engan hátt beint til þeirra) - mér finnst ég eiga það inni. Það er þetta með að geta ekki framkvæmt ákveðnar félagslegar athafnir nema makinn geri slíkt hið sama. Ekki fara í bíó því makinn vildi líka sjá myndina, ekki taka mynd á leigu því þið ætluðu að sjá hana saman, ekki fara á djammið nema með makann límdann við öxl, ekki gera milljón litla og ómerkilega en þó skemmtilega hluti því makinn er getur ekki verið með. Þetta er fólkið sem gefur einhleypum vinum sínum eina afmælis/jólagjöf en ætlast til þess að fá sitt hvora frá þeim. Oftar en ekki finnst mér þetta fólk hafa sömu öfgafullu skoðanirnar en það gæti verið tilviljun. Þetta er líka fólkið sem vorkennir öllum þeim er eru ekki jafn hrikalega ósjálfstæð og ósjálfbjarga og þau - þ.e. einhleypa fólkinu.

Vill til að ég vorkenni þeim líka. Þessu fólki vil ég tileinka eftirfarandi partýóð og bið það vel að lifa.

Hvaða sagnorð sem er getur komið í auðu línuna en þau vinsælustu eru: drekka, syngja, leika, elska, deyja, ríða og reykja - ekki endilega í þessari röð.

Dragðu ekki það að ________
þar til þú eldist
því þá kannski upp af hrekkurðu heldur fljótt
og hefur hreint aldrei ________ neitt
Taktu heldur því sem þér að höndum ber
það þýðir ekki um að fást
þú mátt aldrei láta mæðu sækja sinnið á
né súta yfir von sem brást


Endurtekið þangað til forsöngvari deyr áfengisdauða

P.S. Ég er viss um að ég er eitthvað að klúðra textanum - það gerist alltaf þegar ég reyni að muna hann edrú. Hins vegar er hvert orð kristalstært í minninu á sjötta glasi.

Engin ummæli: