miðvikudagur, nóvember 24, 2004

Ég veit ekki hvað kom mér til að spekúlera um rakstur og almenna háreyðingu en upp úr þeim pælingum spratt eftirfarandi samtal milli Rakstursmafíunnar og Konunnar:

R. Góðan daginn. Ertu búin að raka þig?
K. Á ég að gera það?
R. Líttu undir hendurnar á þér kona!
K. Það er rétt hjá þér - þetta er nú ekki mjög kvenlegt og kræsilegt. Á ég að raka þetta af?
R. Já takk.
K. Ok. Ég er búin. Þetta er miklu betra.
R. Og svo lappirnar.
K. Á ég líka að raka lappirnar?
R. Að sjálfsögðu.
K. En ég er bara með fíngerð ljós hár á löppunum. Er það nú ekki óþarfi? Ef ég raka þau munu þau aldrei vaxa aftur svona ljós og fín.
R. Þetta er ógeðslegt. Af með þau.
K. Nú fyrst þetta er ógeðslegt skal ég raka.
K. Jæja. Nú ætti ég að vera orðin boðleg. Eru leggirnir ekki mjúkir og fagrir? Ja fyrir utan sárin.
R. No pain no gain. Fyrir ofan hné líka?
K. Ha?
R. Úr buxunum. Sko! Hvað er þetta út um öll lærin?
K. Hár?
R. Hár.
K. Þau sjást varla.
R. Alveg sama. Við vitum af þeim.
K. Mér finnst þetta nú vera farið að fara út í öfgar.
R. Ertu með einhvern kjaft? Ertu kannski feminísk lesbía?
K. Nei nei!
R. Eins gott. Losaðu þig svo við þetta yfirvaraskegg.
K. Ég er ekki með yfirvaraskegg!
R. Þú heldur það já? Skoðaðu þig aðeins í þessu stækkunargleri. Þarna má greinilega sjá hár!
K. Ég er líka með hár fyrir ofan augun! Á ég ekki að raka þau af?
R. Engin hortugheit við mig góða! En fyrst þú minnist á það væri svo miklu snyrtilegra að plokka þau af og teikna á augabrúnir.
K. Jæja fer þetta ekki að verða gott?
R. Alveg að verða búið. Hvernig er klofið á þér?
K. Væri þér sama? Hvaða kemur þér það við. Ég snyrti eins og til þarf.
R. Eins og til þarf ... láttu mig ekki hlæja. Það verður að fara með sláttuvélina á allt saman góða. Þetta er allra versti staðurinn.
K. En það hlýtur að vera óþarfi. Það er nú ekki eins og þetta sjáist dags daglega.
R. Þú verður að fylgja tískunni ef þú vilt kallast gjaldgeng stúlka. Hvort má nú bjóða þér rakvél, hníf, heitt vax eða brennand efni?
K. Um... með hverju mælirðu?
R. Hnífurinn og rakvélin kalla á ákveðna tækni og sveigjanleika, vaxið þolgæði og háreyðingarkremið góða tímavintund. Of stuttur tími og hárin eyðast ekki alls staðar og of langur og ætandi efnin fara að erta húðina.
K. Hana, ertu þá loksins ánægð?! Ég er útskorin á löppunum, með inngróin hár í handakriknum og klofið orðið rústir einar. Ekki stingandi strá á líkamanum fyrir utan hárið á höfðinu.
R. Fallegt hár er stolt hverrar konu.
K. Já og nokkur væskisleg hár á handleggjunum. Á ég ekki að rífa þau af fyrst ég er nú á annað borð byrjuð?
R. Auðvitað ekki. Það er enginn að ætlast til þess. Ennþá. Við verðum í sambandi.

1 ummæli:

Sigga Lára sagði...

Þetta er alveg t****góður einþáttungur!