þriðjudagur, nóvember 02, 2004
Skammdegið hótar að vara allan sólarhringinn og er ekki vænlegt til athafnasemi. Þessa dagana þarf eitthvað hressandi til að ná manni fram úr rúmi. Fréttunum tókst það í fyrsta skipti í all langan tíma með loforði um eldgos. Um leið og heilinn náði að melta upplýsingarnar og skilja frá draumum hentist ég fram úr rúmi og kveikti á sjónvarpi. Hvílík vonbrigði; föl kona var að þylja upp fréttaskýringu og engar spennandi myndir. Hvar er Ómar Ragnarsson þegar maður þarf á honum að halda? Ég fór því bara að dunda mér í rólegheitum þangað til klukkan var orðin alltof margt og ég þurfti að klæða mig og mæta í vinnu. Ferli sem tekur á góðum degi fimm mínútur. En ekki í morgun. Ennþá í pínu sæluvímu eftir íþróttaiðkunina í gær ákvað ég að fara aftur í hádeginu í dag (ekkert svakalegt - bara smá trítl á göngubrautinni og góð sturta) og hóf að tína ofan í íþróttatösku. Skyndilega tek ég eftir því að hún er blaut. "Andskotinn," hugsa ég, "þarf ég nú að fara að þrífa upp sjampó!" og tek til við að tína aftur upp úr töskunni. En nei - engin sjampóflaska í töskunni (sem þýðir að ég skildi hana eftir í Slippnum um daginn - dauði og djöfull!) - bara þessi indæla lykt. Um nóttina hafði annar kötturinn tekið upp á því að míga á hana. Ég hef Lísu sterklega grunaða - hún hljóp svo flóttalega undan mér um alla íbúð (sem hún reyndar gerir að jafnaði) og Gabríel hefur ekki pissað á gólfið síðan hann var kettlingur. Nú var ég að verða of sein en þurfti að leggjast í töskuþrifnað og annað skemmtilegt. Sem betur fer hafði kettinum tekist að pissa á það horn á töskunni sem var tómt þannig að leikfimisfötin mín voru alveg hrein. Nú liggur fúla ræksnið í bleyti í baðkarinu. Ég held ég viti hvað ég vilji í jólagjöf. Þegar ég kem heim seinna í dag bíður mín svo ilmandi íbúð.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Nú eru aftur á móti komnar hressandi myndir af eldgosi á vefmiðlana og Ríkissjónvarpið verður með hádegisfréttatíma! Verst að hér er ekki sjónvarp, ég elska svona aukafréttatíma. Finnst ég vera komin í hringiðu æsilegrar atburðarásar...
Skrifa ummæli