mánudagur, maí 23, 2005

Júróvisjón smjúróvisjón. Eins og ég hef nú gaman af uppákomunni og allri vitleysunni í kringum hana er ekki laust við að ég sé alltaf með soldið vont bragð í munninum eftir hverja keppni. Sérstaklega ef ómerkileg lög vinna. En það er allt í lagi. Ég verð búin að gleyma öllum slíkum smáatriðum að ári og eftir lifir aðeins minningin um partýið. Sem tókst með miklum ágætum. Við hittumst 10 heima hjá Nönnu og Jóni Geir, gáfum lögum stig eftir brjóstaskorum og partýgildi, drukkum bollu og súpu, stóðum sem klettur með Noregi og Moldavíu, lýstum yfir almennu frati á tónlistarsmekk Evrópu og heltum okkur út í Singstarkeppni. Það verður ekki frá honum tekið að sannur sigurvegar kvöldins var Gummi gítar fyrir ógleymanlegan flutning á Franz Ferdinand slagaranum "Take me out." Ég hef sjaldan verið jafn nálægt því að pissa á mig. Það skal tekið fram að Gummi hafði aldrei heyrt þetta lag áður. Eftir tvær umferði var setið og spjallað í smá stund og svo haldið heim á leið. Síðustu þrjú Eurovision kvöld hef ég afrekað það að sneiða algjörlega framhjá miðbænum. Er að spá í að gera það að hefð.

Var óvenju atorkusöm í gær - svo mjög að mér leist varla á blikuna. Sló allan garðinn, rakaði og tók saman. Gekk síðan niður í bæ, náði í bílinn og brunaði í mat til foreldranna. Þrátt fyrir lokkandi boð Nönnu að koma og spila Carcassonne ákvað ég að hanga heima og slappa af (enda þreytt eftir átökin) en fékk þá þá flugu í hausinn að hengja upp gluggatjöld. Sem ég þurfti fyrst að falda. Tókst að detta niður af stól á meðan ég var að vesenast við brautirnar og lenda utan í borðkanti á leið niður. Er með myndarlegan marblett á vinstri mjöðm og vott af bólgu. Sem er í raun hið besta mál því það kallast á við bólguna sem er ennþá á þeirri hægri og gerir mig vonandi bara symmetrískari. Eða hugsanlega hólóttari. Þannig að á miðnætti var stofuglugginn minn aftur orðinn blóðrauður og fólk getur hætt að villast á leið í heimsókn.

Engin ummæli: