föstudagur, maí 06, 2005

Prófin afstaðin - einkunnir komnar í hús og ekkert hægt að gera í niðurstöðunum að svo máli komnu. Enda engin ástæða til. Fékk 8 fyrir stigsprófið sem er víst alveg ágætt og 9,75 fyrir tónfræðiprófið sem er, að ég held, barasta dúx. Alltaf gaman að slíku.

Held áfram að reyna að endurvinna framtíðarplön og það nýjasta á dagskrá er að við Auður ætlum að stofna einkaspæjarabissness (þá getum við njósnað um fólk án þess að þurfa að skrifa um það áhugaverðar og upplognar greinar) og við Nanna ætlum að stofna hljómsveit (upphitunarband fyrir Hraun! sem samanstendur eingöngu af grúppíum og spilar bara tvö lög.) Ef mér leiðist ekki tek ég kannski ekki eftir tilgangsleysi lífs míns.

Þegar ég var lítil stúlka og bjó á Búrfellsvirkjun áttum við krakkarnir það gjarnan til að koma sama og búa til leiki. Ég man sérstaklega eftir að hafa setið löngum stundum upp á þaki Þjóðveldisbæjarins ásamt Ninnu, Herdísi, Hafrúnu, Kollu, Ara og hinum krökkunum að skipulega heilu sápuóperurnar með afskaplega flóknum plottum sem fólu m.a. í sér að Kolla og Ari (sem voru sennlega 8 ára) voru uppfinningamanneskjur að búa til alls kyns flóknar græjur. Sú staðreynd að allt sem við vorum að skipuleggja var ekki fyrir fullorðna manneskju að framkvæma - hvað þá nokkra krakkaorma sitjandi úti í sveit uppi á grasþaki - skipti nákvæmlega engu máli. Það var nóg að njóta þess að leyfa ímyndunaraflinu að fara á almennilegt flug því þegar leikurinn hafði verið skipulagður út í ystur æsar vorum við hvort eð er búin að fá leið á honum og sennilega kominn drekkutími.

Mér líður pínulítið þannig núna. Stundum getur verið svo gaman að skipuleggja að framkvæmdin nær aldrei að uppfylla væntingarnar sem gerðar hafa verið. Stundum er það bara allt í lagi.

1 ummæli:

Skotta sagði...

til hamingju með lífsgleði og dúx!