föstudagur, júní 10, 2005

Úff - hvað er að gerast? Mér finnst eins og ég hafi hrokkið úr gír þessa fyrstu viku í júní. Sennilega er bara fyrir löngu kominn tími á frí. Hef ekki tekið mér svoleiðis síðan ég fór til Manchester í nóvember síðastliðnum. Upphaflega stóð til að vera litla bróður innan handar með soninn á meðan konan fór í rannsóknarleiðangur til Vestmannaeyja en nú er hún hætt við það og ég skyndilega laus og liðug þessa næstu viku. Eða þannig. Þarf reyndar að skrifa tvö viðtöl og mæta í skóla. Og spá fyrir fóstrum í óvissuferð í Elliðarárdalnum á morgun. Svosem nóg að gera.

Sá lokaþáttinn af CSI (þ.e. alvöru lokaþáttinn - ekki það sem Skjár Einn kallar lokaþátt en þýðir í raun að þeir hætti sýningum í miðri seríu.) Nú er ég ekki mikill aðdáandi þessara þátta - jú jú ágætis afþreying svona við og við - og þá helst þessir upprunalegu - ég hef lítið nennt að fylgjast með afsprengjunum í Miami og New York. En þeir líða fyrir það að vera fyrirsjáanlegir og formúlukenndir með eindæmum: Alltaf skal sagt frá tveimur málum - alltaf skal Grissom kom með kaldhæðið komment áður en titillagið byrjar - alltaf skal sökudólgurinn játa - alltaf skal vera hægt að skýra vídeóupptöku með því að ýta á einn takka þótt í reynd sé það ómögulegt - alltaf skulu aðalpersónurnar tala niður til sökudólgana með hroka og yfirlæti - aldrei skal sjást sviti eða hár úr skorðum á fólki sem hefur verið að gramsa í ruslagámi í 12 tíma.

Því var nokkuð forvitnilegt að sjá hvað Quentin Tarantino myndi gera við formatið en hann bæði skrifaði og leikstýrði þessum lokaþætti.

Vá.

Þetta var ekki sami þátturinn. Þetta var pimpaða útgáfan með dvd spilara í loftinu og læk í skottinu. Plottið var einfalt - einhver rænir Nick Stokes og kviksetur. Samtarfsmenn hans þurfa að keppa við tímann og finna hann áður en hann deyr. En þátturinn bauð bara upp á svo miklu meira. Skyndilega urðu persónunar lifandi og raunverulegar. Leikararnir voru ekki lengur á autopilot og höfðu úr einhverju að moða. Leikstjóri reyndi augljóslega að fara aðrar leiðir með leikarana og með litlum breytingum hér og þar tókst að ná fram alvöru persónusköpun. Sarah varð yfirspennt, Warrick taugaveiklaður, Catherine biðjandi, Nick viti sínu fjær af hræðslu. Lítil aukaatriði krydduðu söguþráðinn; Ecklie varð manneskjulegur og ráðlagði undirmönnum sínum, pabbi Catherine rifjar upp gömlu góðu dagana í spilavítinu ásamt Tony Curtis, litli skrítni kúrekalögræðingurinn sem hafði aldrei fengið jafn stórt mál og fór yfirum í ráðleggingum, töffarasaga Warrick, draumaatriði Nick og svo mætti lengi telja. Aldrei þessu vant voru löggurnar þreyttar og úttaugaðar, komust ekkert áfram með rannsókn málsins, þurftu aldrei að skýra vídeóupptöku til að ná bílnúmeri, gerðu heimskuleg mistök og - það sem kom mest á óvart - voru aldrei pirrandi eða yfirlætisfullar. Þetta er CSI eins og það ætti að vera. Sorglegt að vita til þess að allt muni fara í sama farið næsta haust.

Engin ummæli: