laugardagur, janúar 28, 2006

Jæja - Godot mætti loksins á svæðið og reyndist vera stelpa. Hvað ætli Beckett segði?

En það er gott að heyra að allt gekk að lokum hjá Sigguláru og hún og Árni hafið fengið litla böggulinn í fangið heilann á húfi. 15 merkur og 49 cm - ekki virtist hún vera að nota þessar tvær "auka" vikur í neitt annað en nauðsynlega stækkun. Til hamingju bæði tvö. Þetta rétt náðist áður en ég þurfti að fara úr landi (því mig langar mikið til að sjá hana :)

Er núna á fullu að hugsa ekki um ferðalag dauðans sem ég legg í eftir 5 daga. Langar mest til að pakka engu nema tannburstanum og vegabréfinu. En ég ætla ekki að væla yfir ferðalögum núna - er að geyma það fyrir miðvikudaginn.

Morguninn fór annars í skemmtiferð með Gabríel til dýralæknisins. Enn og aftur. Slagsmálakötturinn minn. Nú hafði honum tekist að rífa úr sé kló svo hún hékk grotnandi í hárunum á loppunni. Hann væri sjálfsagt steindauður ef hann hefði ennþá öruggan aðgang að testósteróni.

Eftir að hafa skilað óargadýrinu heim og skipulagt annasaman eftirmiðdag með Sudoku var ég rifin út úr húsi og skellt í bleyti í Kópavogslaug hinni nýrri ásamt Nönnu, Jóni Geir og Hjalta. Uppgötvaði þar algjörlega óvænt minn innri sundmann sem hefur legið frekar kyrfilega í dvala hingað til. Yfirleitt tek ég 200 metra og finnst það harla ágætt og soldið leiðinlegt. Þarna komst ég í eitthvað buslstuð og æddi áfram 500 metra án þess að stoppa varla eða blása úr nös. Hætti bara vegna þess að samsundsfólki mínu hungraði í mat. Ég þori varla að vona að þetta geti endurtekið sig.

3 ummæli:

Auður sagði...

Með þessu áframhaldi ferðu að slá út sundgarpana á Garpablogginu :D Bíð spennt eftir frekari lýsingum á æfingaprógrömmum og kílómetrafjölda...

Ásta sagði...

Synda meira, synda meira!

Blogger segir: seemcyh

Eða: See me cyhnda meira!

fangor sagði...

þú stóðst þig eins og hetja og syntir mína metra líka. við stefnum bara að frekari sundafrekum þegar þú snýrð aftur sólbrún og sælleg frá andfætlingalandi