laugardagur, janúar 07, 2006

Jólin búin - þrettándinn liðinn og þá tekur maður niður allar skreytingar. Það sama á við um Jólaævintýrisplögg sem gáfu þessari síðu óneitanlega lit og birtu líkt og seríurnar í stofuglugganum. En það sem á ekki við lengur er ekki viðeigandi og því fer sem fer. Það taka líka önnur verkefni við eftir þessi og nú er búið að endurvekja hina stórskemmtilegu vampýruóperu "Bíbí og blakan" upp úr værum dvala og verður hún sýnd í Þjóðleikhúskjallaranum aðeins eitt kvöld - þ.e. næstkomandi miðvikudagskvöld. Ekki missir maður af því.

Aukalokasýningin í gær gekk með ágætum. Það var algjörlega yfirbókað en eitthvað virtist veðrið draga úr fólki og fyrir rest renndum við stykkinu í allra, allra síðasta sinn fyrir hálf fullum/tómum sal. Ég hélt lóðréttri stöðu og kom öllum línum og lögum svotil óbrengluðum út úr mér og gat ekki beðið um meira. Mæli með bráðri lungnasýkingu ef þið eruð að versla ykkur veikindi - skuggalega auðvelt að jafna sig á henni í ljósi þess að daginn áður var ég með 39 stiga hita og krafta á við dasaðan kettling. Þótt veðurguðirnir hafi ekki verið okkur hliðhollir voru pestaguðirnir það greinlega því ekki var ég sú eina í leikritinu sem rétt marði það að standa sæmileg heilsu á sviðinu.

Annars bíða allir Hugleikarar nú með öndina í hálsinu eftir burði nýjasta sköpunarverks Sigguláru og keppast um að veðja á daga og kyn. Held ég hafi bundið mig við "9. janúar" og "stelpa" einhvern tímann á síðasta ári. Koma svo :)

3 ummæli:

Siggalára sagði...

Hihi. Þarf einmitt að fara að taka saman hvað er komið í veðbankana. En, allavega ekkert að gerast í dag. Þannig að ekkjámorgunheldurhinn er jafngott ágisk og hvaðeina... Vona bara að ég þurfi ekki að hanga og fitna til 27. janúar, en á því er jú alveg fræðilegur möguleiki.

Bið að heilsa umheiminum.

fangor sagði...

skipti yfir á föstudaginn 13 í ágiskunum mínum. það er líka kúll dagur

Ásta sagði...

Við Skotta vorum einmitt að ræða það. Auðvitað getur almennilegt nornarbarn ekki verið þekkt fyrir annað en að fæðast föstudaginn þrettánda.