miðvikudagur, ágúst 22, 2007

Þessi kona á skilið Thule

Ég er með framkvæmdahiksta. Ekki veiki, ekki maníu, ekki áráttu - bara smá hiksta sem lýsir sér litlum framkvæmdarhvellum sem eru svo yfirstaðnir um leið og dágóður tími í þann næsta. Ég geri mikið af því að bretta upp og niður ermar þessa dagana.

Mér varð ekkert úr verki í gær en ákvað að "gera eitthvað í þessu" núna í kvöld og koma upp hillunum sem ég keypti í svefnherbergið. Til þess þurfti ég að bora. Ekkert mál - ég hef svosem borað áður - boraði saman allt garðshliði. Pabbi hafði látið mig fá forláta borvél - risastóra, illvíga og svarta á lit með aukahandfangi til að styðja sig á í gegnum mestu brestina og ekkert helvítis batterí bara beint í innstungu. Ég átti ekki von öðru en að þetta yrði létt verk.

Ég skipti um skoðun þegar skrímslið liðaðist í sundur í höndunum á mér á fullri ferð. Steinninn í veggjunum sem svo svakalega harður að ég kom bornum aðeins sentimetra inn í vegginn með venjulegum þrýstingi. Þannig að ég lagðist á hana og gaf í. Úff. Handfangið losnaði frá svo og borinn úr vélinni og einhver stykki flugu eitthvert og ég henti henni frá mér til að forða slysi. Gerist á ca. tveimur sekúntum.

Það fyrsta sem ég hugsa er: "Sjitt - ég er kvenmaður. Kvenmaður sem kann ekki að bora."

Ég leita út um allt að stykkinu sem hvarf (og hefur þá fúnksjón að festa borinn við borvélina) en finn ekki. Sé mig nauðbeygða til að hringja í pabba og segja farir mínar frekar ósléttar. Hann er ekki hissa - en ekki á minni vanhæfni! Borvélin sem hann gaf mér var víst eldgömul, ódýr og frekar vafasöm að uppruna. Hann var að vonast til þess að hún mundi "duga". Hah! Húsið mitt var byggt árið 1938 - á meðan menn kunnu enn að blanda sement og munaði ekki um að skella í terrazzo gólf á göngunum - ólíkt hripleku og útsprungnu bónushjöllunum sem voru steyptir á áttunda áratugnum og flestir miðaldra foreldrar þessa lands búa í. Ég fæ almennilega vél lánaða á morgun og nú fé ég mér bjór. Því ég á það svo sannarlega skilið.

Skál.

Með honum ætla ég svo að horfa á þáttinn sem segir frá því þegar menn voru alvöru menn með áfengissýki og lungnaþembu og konur voru klipnar í rassinn og skríktu af ánægju.

1 ummæli: