þriðjudagur, september 28, 2004

Ég veit hvað ég er gömul. Í alvöru. Engin sjálfblekking í gangi hér. En stundum er hinni sorglegu staðreynd beinlínis slengt framan í mann svo maður liggur hálfvankaður eftir.

Ég fór út á nes á laugardaginn til að hjálpa mömmu að passa barnabörnin. Pabbi var ekki heima og hún vissi ekki að Heba kæmi með. Svo reyndist þetta hið minnsta mál þar sem pabbi kom fljótlega heim og við Heba og Gísli Hrafn fórum niður í vinnuherbergi pabba að tékka á myndarlega hljómborðinu sem ég ætlaði að fá lánað. Gísli Hrafn vissi ekkert betra en að fá að sitja í kjöltu minni, grípa um putta mína og láta mig þannig glamra á hljómborðið. Á meðan var Heba að skoða gömlu hljómplöturnar sem foreldrarnir voru búnir að fjarlægja úr stofunni ásamt græjunum sem pössuðu víst ekki lengur við innréttinguna. Svo kom sjokkið: hún hafði aldrei hlustað á hljómplötu. Hún kunni ekki að nota plötuspilara og þorði varla að koma við nálina. Barnið er 12 ára! Maður var sjálfur farinn að brúka þessi tæki þegar maður gat staðið uppréttur og skellt "Karíusi og Baktusi" á fóninn. Það sem bjargaði þessi ekki svo litla sjokki var að þar sem hún sat á gólfinu og fletti bunkanum og Gísla Hrafn lét mig berja út ódóðlegt tónverk (staccato) á ferlíkið datt mér í hug að athuga hvort foreldrar mínir höfðu verið svo fyrirhyggjusamir í den að kaupa plötu Böðvars Guðmundssonar - fyrst þau áttu nú Mannakorn og Savannatríóið og annað álíka sem prýðir held ég flest foreldraplötusöfn á landinu. Ég lít niður og þar blasir hún við! Að ég skyldi ekki tékka á því fyrr! Þar sem greinlega enginn var að nota hana (og hún er í svo góðu ásigkomulagi að mig grunar að hún hafi aldrei verið spiluð) var ég ekki lengi að ræna henni og get nú hlusta' á "Næturljóð úr fjörðum" þegar ég vil!
Nú er tími stórfelldra breytinga. Fólk flytur inn og út úr húsum. Byrjar og lýkur námi, barneignum, störfum og samböndum. Glímir við heilsuna og hrærir í lánasúpunni. Það er svo komið að ég þekki varla vini mína og ættingja lengur og á ekki von á að þeir þekki mig nokkuð betur. Einhver staðar var Dauðinn í spilunum og við gleymdum að gá.

Helstu breytingarnar í mínu lífi eru auðvitað þær að ég byrjaði í söngnámi, er komin með hljómborð inni í stofu og hafin að hamra út Greensleaves með talsverðum framförum dag frá degi. Ég hef líka tekið upp á því að fara að sofa á skikkanlegum tíma sem var alveg óvart. Siggalára ætlar að yfirgefa mig og flytja heila 2 kílómetra í burtu. Samlíf okkar síðustu 9 mánuði hefur gengið furðuvel þrátt fyrir -og kannski vegna þess - að við hittumst sárasjaldan. Einhvern veginn hefur okkur tekist að haga deginum þannig að við skiptumst á að vera heima og hittumst rétt aðeins áður en við förum að sofa. Persónulega finnst mér ekkert liggja á að hún segi skilið við heimilið en ég skil ósköp vel spenninginn við að flytja í sína eigin æðislegu íbúð.

Að öðru - fyrir ykkar sem hélduð að líf mitt væri búið þegar Buffy hætti og aðeins þunglyndi og eymd á sjóndeildarhringdum þar sem ég lægi snöktandi í uppi í sófa í fósturstellingu og horfði á dvd pakkana mína aftur og aftur - fyrir ykkur hef ég aðeins eitt orð: Lost.

Lífið heldur áfram.

mánudagur, september 27, 2004


Og virkar svona glimmrandi vel!

Myndina sendi ég
Powered by Hexia

föstudagur, september 24, 2004

Þegar kulda leggur yfir landið og lægðir pressa á axlirna langar mig mest af öllu að leggjast í alarlega áfengisneyslu. Þetta tvennt hlýtur að vera samtengt. Ég er þess fullviss um að aðeins ríflegt magn af etanóli getur aflétt þeim doða og sleni sem legið hefur á mér eins og mara síðastliðnar vikur. Það er í öllu falli planið þessi helgi: skemmtanir. Og kominn tími til.
Að öðru leyti er hausinn á mér þessa dagana uppfullur af hljómfögrum nótum og glæstum framtíðaráformum á óperusviðinu (eða ekki) þar sem ég hef hafið að mæta í söngtíma. Næsta mál á dagskrá er að næla sér í hljófæri og hef ég samþykkt að fara út á nes á morgun og hjálpa mömmu að passa barnabörnin en í staðinn mun ég ræna pabba hljómborðinu. Er búin að hamast á netinu í allan morgun við að finna nótur af hinum ýmsu klassísku verkum og prenta út og tilbúin að tækla tónlistan með góðu og/eða illu. Siggalára getur prísað sig sæla að hafa nóg fyrir stafni fyrir utan heimilið því ég á ekki von á að heimilið verði vettvangur mikillar geðheilsu næstu vikur - hvorki minnar né þeirra sem verða svo óheppnir að hlýða á. Für Elise - aftur og aftur og aftur ...

þriðjudagur, september 21, 2004

Survivior er byrjaður á ný. Jibbí jibbí jei. *geisp*

Ég hef horft dyggilega á allar seríurnar hingað til og leyft mér, trekk í trekk, að horfa framhjá fyrirsjáanlegum úrslitum og alltof mörgum nautheimskum þátttakandum. Nú get ég bara ekki meir. Þessi nýjasta sería gerir ekkert til að vekja áhuga hjá mér. 18 könum, sem okkur gæti ekki verið meira sama um, er plantað á eyju og skipt í karla og kvennahópa. Ég sé fram á að það muni endast í svona 3 þætti. Þegar þessi skipting var síðast fannst mér auðvelt að halda með kvennahópnum en núna á ég í talsverðum vandræðum með að halda með nokkrum. Þetta er svo óttalega leiðinlegt lið. Karlahópurinn samanstendur af hrokafullum strákpjökkum og vænissjúkum gamlingjum. Kvennahópurinn skiptist í latar, ýlandi dræsur og bitrar, pirraðar kellingar. Ég gat ekki séð þau hefðu einn stakan persónuleika til skiptana. Sá/sú vinnur sem missir buxurnar sjaldnast niður um sig. Fer Amazing race ekki að byrja bráðum?

mánudagur, september 20, 2004

Legsteinninn minn:

Jæja - nú vil ég fara að fá að vita eitthvað. Fara að byrja í þessum skóla ef ég á að vera í honum á annað borð. Óvissa er ekki ástand sem ég kann vel við mig í. Er að velta því fyrir mér hvort ég eigi að hringja í kennarann - hún sagðist nú ætla að hafa samband við mig. Ætli hún sé búin að gleyma mér? Kannski verður hún bara pirruð ef ég fer að ganga á eftir henni?

Af hverju hef ég aldrei lært að naga neglurnar?

föstudagur, september 17, 2004

Ja hérna hér - aldrei verður maður of gamall til söðla um og byrja upp á nýtt. Er s.s. á leið í skóla enn og aftur. Er búin að sækja um inngöng í Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem ég ætla að stúdera söng og allt sem fylgir því. Sé fram á vera 10 árum eldri en samnemendur mínir. Skólinn er að vísu byrjaður en það á að vera hægt að troða mér inn engu að síður. Þetta hefur allt gerst svo hratt (fór í prufu í gærkvöldi, fékk að vita fyrir hádegi að ég kæmist inn, var að keyra fram hjá Skipholtinu þegar ég fékk símtalið þannig ég hentist þangað inn med det samme og fyllti út umsókn) að ég hef ekki haft tíma til að spá í hvað ég er að gera. Er búin að redda mér fjármagni fyrir skólavist ásamt vilyrði forstjóra fyrir því að hverfa úr vinnu einu sinni í viku þann eina klukkutíma sem stangast á við starfstímann.

Nú vantar mig víst bara píanó.

þriðjudagur, september 14, 2004

Æ,æ - stundum er ekki nokkur leið að hafa hemil á fólki.
Lumar einhver á mp3 spilara sem hann eða hún er hætt að nota og vill endilega koma í verð? Því ég er á höttunum eftir slíku apparati en get ekki hugsað mér að borga fullt verð. Ég var nefnilega að uppgötva hljóðbækur á ný. Þegar ég var í hlutastarfi hjá Landsvirkjun fyrir þó nokkrum árum mætti ég nokkrum sinnum í viku (2-3) og vann eins lengi og ég nennti - þó oftast minnst 4 tíma í senn. Fyrirtækið var að færa skjöl sín frá Word yfir í Lotus Notes kerfið og ekki var til betri aðferð en sú að gera copy/paste fyrir hvert skjal og laga síðan spássíur og fyrirsagnir í höndunum. Þetta er einföld og auðveld vinna en alveg ótrúlega leiðinleg. Eftir 3 skjöl var ég iðullega farin að dotta og slefa pínu á lyklaborðið og skipti þá engu máli hversu hress ég var þegar ég byrjaði. Ég fór því að mæta með vasadiskó og hlusta á útvarpið - eitthvað til að halda alfabylgjunum virkum (hér skal það tekið fram að Landsvirkjun sá ekki ástæðu til að úthluta mér tölvu með internet tenginu - aðeins aðgang að innra neti sem bauð ekki upp á mikið afþreyingarefni.) Það dugði í svona 10 sköl og þá fór tónlistin og malið í útvarpsmönnunum að hafa sömu áhrif á mig og flóuð mjólk og sterk svefntafla. Þá datt ég ofan á það snilldarráð að fá hljóðbækur lánaðar á Borgarbókasafninu og hlusta í vinnunni. Þetta svínvirkaði. Ég naut þess að hlusta á hin ýmsu skemmtilegu bókmenntaverk sem fönguðu næstum alla mín athygli og forðuðu mér frá því að dorma og sá hluti heilastarfsemi minnar sem fór annars í flókin verkefni á borð við að stanga úr tönnunum og klóra sér í rassinum nýttist sem aldrei fyrr til fjár. Í tvö ár sat ég reglulega í kjallaranum á Háaleitisbraut og henti inn gátlistum í þúsundatali á meðan hvert snilldarverkið streymdi um eyru mín. Þetta var ekki versta vinna sem ég hef haft (sá heiður fer til fatahengsins í Casablanca en það er önnur saga.) Eftir að ég hætti hjá Landsvirkjun hef ég lítið hlusta á hljóðbækur. Þær höfðu alltaf þjónað mjög ákeðnum og afmörkuðum tilgangi í mínu lífi - þ.e. halda mér með meðvitund - og þegar sá tilgangur var ekki lengur til staðar var engin nauðsyn fyrir hljóðbækurnar. Gömlu hljóðbækurnar voru allar á spólum og þegar ég var búin að taka allt á safninu sem hlustandi var á var aðeins um bókabúðirnar að ræða og þar voru (og eru) spólurnar seldar á uppsprengdu verði. En nú er öldin önnur. Þetta er allt komið á geisladiska og eðlileg afleiðing af því er sú að bækurnar rata á netið. Þar sem ég er byrjuð að dánlóda þeim. Ég er hins vegar ekki með geislaspilara í bílnum - eða nokkurs staðar annars staðar en í tölvunni og finnst það því vera snillarráð að skella þeim í mp3 spilara og fara svo í hressandi göngutúr í haustgolunni. Það vantar aðeins einn lítinn hlut til að fullkomna myndina; fjandans rándýra spilarann.

laugardagur, september 11, 2004

Mig langar til að skrifa leikrit um manneskju sem fer aldrei fram úr rúmi og er því hamingjusamasta manneskja í heimi. Uppsetningin ætti að vera mjög einföld - eina krafan er stórt og mjúkt vel um búið rúm á sviðunu og allt annað má mæta afgangi. Þessi manneskja býr ekki ein þvi einhver þarf að vera til staðar til að fara til dyra því það verður stanslaus straumur gesta sem koma með gjafir, skemmtilegar sögur og halda lofræður um yndislegu, hamingjusömu manneskjuna í rúminu. Ég ætla að láta öll salernismál liggja á milli hluta. Í lokin deyr hún af gleði og aðstandendur syngja saknaðarsöng þar sem þeir búa um rúmið í hinsta sinn. Sé fyrir mér frumraun mína í aðalhlutverki þar sem ég velti mér í múkum rúmklæðunum og brosi framan í heiminn/salinn.

Þarf titil... Beðmál? Sögur úr sængunum? Titlagerð hefur aldrei verið mín sterkasta hlið.

Ég er hugsanlega undir smá áhrifum frá Beisku tárum Petru von Kant sem ég sá í gærkvöldi (af hverju voru þau svona beisk?) hvað sjáfsmiðaða aðalpersónu varðar en mér sýnist á öllu að mín sýning verði, ólíkt Petru, algjörlega laus við drama og átök. Það og mig grunar að ég nenni ekki að standa upprétt á sviði í bráð. Og er ekki ennþá búin að klæða mig þar sem ég þykist ennþá vera veik og hef hangið vakandi uppi í rúmi frá því kl. 8 í morgun. Skemmti mér vel á sýningunni í gær - ef skemmti er rétta orðið (sumir - og ég nefni engin nöfn - táruðust yfir atburðarrásinni); allar sex leikkonur stóðu sig vel, skiptingar voru vel útfærðar og endirinn magnaður. Takk fyrir mig.

miðvikudagur, september 08, 2004

Blah - ég held að ég sé aftur að verða ekki-veik.

En... ég elska ykkur nógu mikið til að væla ekki meira um það.

Fór í gær ásamt Auði að fylgjast með feministum taka alþingismenn á beinið á efri hæðinni á Sólon. Þótt mér sé annt um mikið af málefnunum sem rætt var um gat illgjarna kvikindið í mér ekki stillt sig um að hafa meiri áhuga á kómísku míkrafón brölti fundarstjóra, svipunum á Ögmundi þegar Einar Guðfinnsson tilkynnti að Sjálfstæðiflokkurinn færi aldrei úr ríkisstjórn og ranghvelfandi augum fundargesta yfir blaðrinum í frjálslynda gemlingnum Gunnari Örlygssyni. Einnig tókst mér að hafa illan bifur á þeim fundargestum sem áttu að spyrja einfaldrar spurningar en héldu að fyrst þeir fengu míkrafón í andlitið bæri þeim skylda til að röfla um eitt og annað í fari og starfi þingmannanna sem fór fyrir brjóstið á þeim. Fljótlega fór fólk að endurtaka sig og hjakka í smáatriðium og ég að upplifa athyglisbrest. Ég komst að því að ég hafði meiri áhuga á magainnihaldi mínu en fléttulistum og stakk af eftir rúman klukkutíma niður á neðri hæðina að fá mér að borða. Þegar ég kom aftur upp tæpum klukkutíma síðar hafði ég víst misst af litlu örðu en því að það ku ekki vera tímabært að svo stöddu að endurreisa Kvennalistann. Það er þó ekki þar með sagt að um tímaeyðslu hafi verið að ræða. Jónína Bjartmarz og Margrét Frímannsdóttir voru skemmtilegar í pontu og vissu um hvað þær voru að tala og Ögmundur átti nokkra góða spretti. Sérstaklega fór um mig ánægjuhrollur þegar Jónína setti ofan í við hrokafulla strákgutta (t.d. Gunnar). Þegar uppi er staðið er ég ekki alveg tilbúin til að ganga í femínistafélagið en hef talsvert meiri áhuga á pólitík. Það var alltaf verið að koma að því að þjóðfélagshópar ættu að eiga sína fulltrúa á þingi. Er einhver þarna sem representerar minn þjóðfélagshóp? Einhleypa, barnslausa, prjónandi kvenkyns nörda á fertugsaldri? Hvernig kemst maður í framboð?

mánudagur, september 06, 2004

Jæja þá er loksins komið haust. Mér er a.m.k. kalt í fyrsta skipti í þrjá mánuði og þarf ekki lengur að sitja kófsveitt á hlírabol í vinnunni - hrellandi gesti og gangandi.

Helgin var aldeilis ljómandi ágæt og frídagarnir mínir tveir í síðustu viku komu að óvenju góðum notum. Ég er svotil alveg búin að mála kjallaraeldhúsið (það fór sem mig grunaði að leigjendurnir gerðu ekkert yfir helgina - nema að skíta út eldhúsið á ný - þrátt fyrir fögur fyrirheit) og heimsótti Kleifar í Steingrímsfirði á ný. Þangað hafði ég ekki komið í átján ár og það var soldið eins og að koma heim. Lyktin var alveg eins og mig minnti og sömu National Geographic blöðin uppi í hillum. Þarna var allt að springa úr berjum og tíndum við nokkur kíló af bláberjum Ég fór nú ekki í langan róður eins ég hafði ætlað mér en við Heba fórum á laugardagskvöldið þegar skyggja tók aðeins frá landi að veiða önd sem flækst hafði í netinu sem karlanir höfðu lagt um morguninn. Þegar við fundum loks fuglinn var orðið alltof dimmt til að ná honum úr þarna í bátnum með góðu móti þannig að við tókum allt netið inn og héldum í land. Pabbi og Atli voru þá mættir til að fylgjast með aðgerðum (eða kannski af því að þeir treystu ekki tveimur stelpum til að fara einar út í báti og verða sér ekki til skammar). Hin óheppna önd reyndist vera æðakolla sem Atli og frú munu væntanlega snæða með bestu lyst á næstu dögum. Ég læt mér nægja berin.