miðvikudagur, september 08, 2004

Blah - ég held að ég sé aftur að verða ekki-veik.

En... ég elska ykkur nógu mikið til að væla ekki meira um það.

Fór í gær ásamt Auði að fylgjast með feministum taka alþingismenn á beinið á efri hæðinni á Sólon. Þótt mér sé annt um mikið af málefnunum sem rætt var um gat illgjarna kvikindið í mér ekki stillt sig um að hafa meiri áhuga á kómísku míkrafón brölti fundarstjóra, svipunum á Ögmundi þegar Einar Guðfinnsson tilkynnti að Sjálfstæðiflokkurinn færi aldrei úr ríkisstjórn og ranghvelfandi augum fundargesta yfir blaðrinum í frjálslynda gemlingnum Gunnari Örlygssyni. Einnig tókst mér að hafa illan bifur á þeim fundargestum sem áttu að spyrja einfaldrar spurningar en héldu að fyrst þeir fengu míkrafón í andlitið bæri þeim skylda til að röfla um eitt og annað í fari og starfi þingmannanna sem fór fyrir brjóstið á þeim. Fljótlega fór fólk að endurtaka sig og hjakka í smáatriðium og ég að upplifa athyglisbrest. Ég komst að því að ég hafði meiri áhuga á magainnihaldi mínu en fléttulistum og stakk af eftir rúman klukkutíma niður á neðri hæðina að fá mér að borða. Þegar ég kom aftur upp tæpum klukkutíma síðar hafði ég víst misst af litlu örðu en því að það ku ekki vera tímabært að svo stöddu að endurreisa Kvennalistann. Það er þó ekki þar með sagt að um tímaeyðslu hafi verið að ræða. Jónína Bjartmarz og Margrét Frímannsdóttir voru skemmtilegar í pontu og vissu um hvað þær voru að tala og Ögmundur átti nokkra góða spretti. Sérstaklega fór um mig ánægjuhrollur þegar Jónína setti ofan í við hrokafulla strákgutta (t.d. Gunnar). Þegar uppi er staðið er ég ekki alveg tilbúin til að ganga í femínistafélagið en hef talsvert meiri áhuga á pólitík. Það var alltaf verið að koma að því að þjóðfélagshópar ættu að eiga sína fulltrúa á þingi. Er einhver þarna sem representerar minn þjóðfélagshóp? Einhleypa, barnslausa, prjónandi kvenkyns nörda á fertugsaldri? Hvernig kemst maður í framboð?

3 ummæli:

Spunkhildur sagði...

Sko þú stofnar bara flokk.
Og ég er kleyfhugsfemínisti líka og vil ekki vera í neinum flokki.

Auður sagði...

Já, og svo safnarðu undirskriftum. Ágætt að fara á barina seint á laugardagskvöldum...

fangor sagði...

fyrir þig er auðvitað pláss á listalistanum. annars finnst mér að við ættum að skella okkur í framboð í næstu borgarstjórnarkosningum með nornalistann, hvernig hljómar það?