þriðjudagur, september 14, 2004

Lumar einhver á mp3 spilara sem hann eða hún er hætt að nota og vill endilega koma í verð? Því ég er á höttunum eftir slíku apparati en get ekki hugsað mér að borga fullt verð. Ég var nefnilega að uppgötva hljóðbækur á ný. Þegar ég var í hlutastarfi hjá Landsvirkjun fyrir þó nokkrum árum mætti ég nokkrum sinnum í viku (2-3) og vann eins lengi og ég nennti - þó oftast minnst 4 tíma í senn. Fyrirtækið var að færa skjöl sín frá Word yfir í Lotus Notes kerfið og ekki var til betri aðferð en sú að gera copy/paste fyrir hvert skjal og laga síðan spássíur og fyrirsagnir í höndunum. Þetta er einföld og auðveld vinna en alveg ótrúlega leiðinleg. Eftir 3 skjöl var ég iðullega farin að dotta og slefa pínu á lyklaborðið og skipti þá engu máli hversu hress ég var þegar ég byrjaði. Ég fór því að mæta með vasadiskó og hlusta á útvarpið - eitthvað til að halda alfabylgjunum virkum (hér skal það tekið fram að Landsvirkjun sá ekki ástæðu til að úthluta mér tölvu með internet tenginu - aðeins aðgang að innra neti sem bauð ekki upp á mikið afþreyingarefni.) Það dugði í svona 10 sköl og þá fór tónlistin og malið í útvarpsmönnunum að hafa sömu áhrif á mig og flóuð mjólk og sterk svefntafla. Þá datt ég ofan á það snilldarráð að fá hljóðbækur lánaðar á Borgarbókasafninu og hlusta í vinnunni. Þetta svínvirkaði. Ég naut þess að hlusta á hin ýmsu skemmtilegu bókmenntaverk sem fönguðu næstum alla mín athygli og forðuðu mér frá því að dorma og sá hluti heilastarfsemi minnar sem fór annars í flókin verkefni á borð við að stanga úr tönnunum og klóra sér í rassinum nýttist sem aldrei fyrr til fjár. Í tvö ár sat ég reglulega í kjallaranum á Háaleitisbraut og henti inn gátlistum í þúsundatali á meðan hvert snilldarverkið streymdi um eyru mín. Þetta var ekki versta vinna sem ég hef haft (sá heiður fer til fatahengsins í Casablanca en það er önnur saga.) Eftir að ég hætti hjá Landsvirkjun hef ég lítið hlusta á hljóðbækur. Þær höfðu alltaf þjónað mjög ákeðnum og afmörkuðum tilgangi í mínu lífi - þ.e. halda mér með meðvitund - og þegar sá tilgangur var ekki lengur til staðar var engin nauðsyn fyrir hljóðbækurnar. Gömlu hljóðbækurnar voru allar á spólum og þegar ég var búin að taka allt á safninu sem hlustandi var á var aðeins um bókabúðirnar að ræða og þar voru (og eru) spólurnar seldar á uppsprengdu verði. En nú er öldin önnur. Þetta er allt komið á geisladiska og eðlileg afleiðing af því er sú að bækurnar rata á netið. Þar sem ég er byrjuð að dánlóda þeim. Ég er hins vegar ekki með geislaspilara í bílnum - eða nokkurs staðar annars staðar en í tölvunni og finnst það því vera snillarráð að skella þeim í mp3 spilara og fara svo í hressandi göngutúr í haustgolunni. Það vantar aðeins einn lítinn hlut til að fullkomna myndina; fjandans rándýra spilarann.

Engin ummæli: