mánudagur, september 06, 2004

Jæja þá er loksins komið haust. Mér er a.m.k. kalt í fyrsta skipti í þrjá mánuði og þarf ekki lengur að sitja kófsveitt á hlírabol í vinnunni - hrellandi gesti og gangandi.

Helgin var aldeilis ljómandi ágæt og frídagarnir mínir tveir í síðustu viku komu að óvenju góðum notum. Ég er svotil alveg búin að mála kjallaraeldhúsið (það fór sem mig grunaði að leigjendurnir gerðu ekkert yfir helgina - nema að skíta út eldhúsið á ný - þrátt fyrir fögur fyrirheit) og heimsótti Kleifar í Steingrímsfirði á ný. Þangað hafði ég ekki komið í átján ár og það var soldið eins og að koma heim. Lyktin var alveg eins og mig minnti og sömu National Geographic blöðin uppi í hillum. Þarna var allt að springa úr berjum og tíndum við nokkur kíló af bláberjum Ég fór nú ekki í langan róður eins ég hafði ætlað mér en við Heba fórum á laugardagskvöldið þegar skyggja tók aðeins frá landi að veiða önd sem flækst hafði í netinu sem karlanir höfðu lagt um morguninn. Þegar við fundum loks fuglinn var orðið alltof dimmt til að ná honum úr þarna í bátnum með góðu móti þannig að við tókum allt netið inn og héldum í land. Pabbi og Atli voru þá mættir til að fylgjast með aðgerðum (eða kannski af því að þeir treystu ekki tveimur stelpum til að fara einar út í báti og verða sér ekki til skammar). Hin óheppna önd reyndist vera æðakolla sem Atli og frú munu væntanlega snæða með bestu lyst á næstu dögum. Ég læt mér nægja berin.

4 ummæli:

Þórunn Gréta sagði...

Hæ... vá hvað allt er orðið flott hérna!! Gaman væri nú að hitta þig einhvurn tíma, tökum einhvern tíma lomber í nýja húsinu mínu, þið verðið að fara að kíkja á slotið konur mínar.

Ásta sagði...

Endilega. Það virðist vera hálfgerð deyfð yfir fólki þessa dagana. Verða að fara að sparka í rassa.

Spunkhildur sagði...

Og æðarfugl er alfriðaður og alfiðraður...

Ásta sagði...

Mikið rétt. Enda var passað vandlega upp á að minnast ekkert á aflann í gestabókinni. Þótt þetta hafi nú bara verið slys.