mánudagur, nóvember 29, 2004

Ég dró Auði með mér á Memento Mori í gærkvöldi. Og hvernig fannst mér? Skemmtileg sýning ... og meira treysti ég mér eiginlega ekki til að segja um það fyrr en ég hef haft tækifæri til að pota aðeins í hausinn á Siggu Láru. Auðvitað ætti ég að vera ofboðslega hlutlaus og bókmenntafræðileg og aðeins skjalfesta mína skoðun og upplifun án utanaðkomandi inpútts eins og sönnum rýnanda sæmir en ég er bara ekki tilbúin til þess í þessu tilfelli. Það er svo miklu auðveldara að vera með sleggjudóma þegar um "ókunnugar" sýningar er að ræða. Þegar maður er búinn að fylgjast þetta náið með aðdragandanum og það hjá leikfélögunum sem maður þekkir vel - sérstaklega þegar sýningin sem á í hlut er talsvert frábrugðin því sem þessi leikfélög (og þá aðallega Hugleikur - ég þekki uppsetningar Leikfélags Kópavogs ekki nógu vel) hafa sett upp áður vill manni ósjálfrátt finnast uppsetningin góð - og af því maður finnur hjá sér þessa tilhneigingu fer maður að streitast á móti og finna eitthvað að. Ekki að mér hafi þótt þetta léleg sýning. Langt í frá. Hins vegar finnur maður alltaf eitthvað gagnrýnivert ef maður endilega vill og ég vil vera viss um að ég gagnrýni á réttum forsendum áður en ég fer að troða báðum löppum upp í mig.

1 ummæli:

Spunkhildur sagði...

Maður verður að fara og sjá þetta.