Ekki veit ég hvar ég finn þessar flensur. Þetta eru ekki einu sinni almennilegar flensur; enginn hiti t.d. Bara svakalega mikið af hósta, hori og hausverk. Árshátíð fyrirtækisins er í kvöld. Það var hringt í mig í hádeginu til að tékka á því hvort ég mundi ekki örugglega mæta. Þráin eftir bata fékk mig til að segja já en ég er ekki viss um að ég hafi svo gott af því að hanga á Broadway klukkutímum saman. Á hinn bóginn er mér farið að leiðast óskaplega. Ég er búin að horfa óheyrilega mikið á sjónvarp undanfarna daga (
House eru ekki svo vitlausir þættir - en ekki kannski ákjósanlegir fyrir manneskju með ógreinileg sjúkdómseinkenni) milli þess sem ég legg mig í svona klukkutíma í senn. Og nú snjóar að því er virðist af einskærri íróníu. Páskarnir nýbúnir og svona.
Ég get þó a.m.k. hlakkað til Kaupmannahafnarferðalagsins sem við
Jóhanna Ýr ætlum að leggja í eftir tvær vikur. Helgarferð til Köben í algjöru tilgangsleysi. Mér líst vel á það.
Ugh - mér sýnist að ég þurfi að hætta mér út fyrir hússins dyr bráðlega til að ná í brauð og meira
dóp Íbúfen. Hmm.. er ekki hægt að panta allt á netinu nú til dags og fá heimsent?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli