fimmtudagur, apríl 28, 2005

Ég stóð við stóru orðin; verð orðin vel tengd eftir helgi hjá Hringiðunni og dásemdin hún Heiða Skúla ætlar að hjálpa mér að halda fjármálum mínum frá óreiðu. Svo er ég að fá nýjan leigjanda þessi mánaðamót. Hann verður að vísu bara í þrjá mánuði en nýir leigjendur eru alltaf boðberar batnandi hags. Ef ég get svo bara haldið heimili mínu flóalausu og komið tölvunni í lag verð ég kát sem lifrarpylsa.

Söngprófið ógurlega gekk svona og svona. Ég er ekki fyllilega dómbær á það sjálf en veit þó að ég var alltof stressuð. Sennilega vegna þess að ég var í aðstæðum sem ég hef aldrei verið í áður. Síðasta lagið mitt (Blítt er undir björkunum) var víst ágætt. Magadanssýningin var hins vegar ekkert stressandi og leið mér eins og blómi í eggi þarna uppi á sviði með mjaðmahnykki. Sýningin fór fram í Tjarnabíó sem ég þekki nú alveg ágætlega og kannast vel við mig uppi á sviðinu. Það hjálpaðist því allt að; mér leið eins og heima hjá mér, það var enginn í salnum sem ég þekkti, ég var ein af 12 dönsurum og hverfandi líkur á að einhver væri að fókusa á mig og mín mistök, við vorum byrjendahópur svo væntingarnar voru mjög lágar og svo var mér bara hjartanlega sama. Ég er enginn dansari og hef enga þörf fyrir að sanna mig á því sviði.

Ég væri aftur á móti alveg til í fá þetta annað stig...

Engin ummæli: