laugardagur, júní 25, 2005

Myndablogg


Yikes! Hver pantadi 12 tonn af rigningu?

Myndina sendi ég
Powered by Hexia

föstudagur, júní 24, 2005

Myndablogg


Loksins :) En eg held eg bidi adeins med pottinn...

Myndina sendi ég
Powered by Hexia

Þá eru bara nokkrir klukkutímar þar til ég held út í faðm náttúrunnar og gíflegrar afslöppunnar. Bústaður og pottur. Er til nokkuð betra? Að vísu finnst mér ég vera að veikjast og veðrið er ekki upp á marga fiska (spáð rigningasudda) en fríska loftið og heitt vatnið skal gera kraftaverk. Hver hefur svo ekki buslað í pottum í 10 stiga frosti? Þetta er ekkert.

Nú þarf ég bara að þrauka næstu 3 tíma í vinnunni - þar sem venju samkvæmt mér hefur einhvern veginn tekist að verða ómissandi daginn áður en ég ætla taka mér frí og sé mér því ekki fært að fara heim núna. Blah.

þriðjudagur, júní 21, 2005

Kæri herra almáttugi drottnari (og frú).

Elsku besti láttu mig vakna einn morguninn (helst í vikunni) með þann hæfileika að kunna alla tóna og Dúr og mollstiga aftur á bak og áfram. Það er óþarfi að kenna mér þá - vitneskjan er þarna en ef hægt væri að auka vinnsluminnið um slatta mikið af megabætum væri ég afskaplega þakklát og ætti jafnvel séns á að ná hljómfræðiprófinu efir tæpar tvær vikur. Eins og staðan er á ég nokkuð auðvelt með að temja mér nýjar reglur en framleiðni hljómaraða gengur hryllilega hægt fyrir sig sökum þjálfunarleysis í að kenna fyrrnefnda tóna og tónstiga. G-lykillinn er að vísu á nokkuð góðu róli en það er verrar með F. Ef ég er 5 tíma að berja saman tvær hljómaraðir heima hjá mér er hætt við að ég þurfi örlítið lengri tíma en þær þrjár stundir sem prófið á taka.

Með von um skjót viðbrögð
Ásta

föstudagur, júní 17, 2005

Gleðilega þjóðhátíðardag nær og fjær.

Ég skellti mér niður í bæ í góða veðrinu og seldi blöðrur og sleikjósnuð á uppsprengdu verði handa krakkaormum til kl. 6 í Hugleikstjaldinu. Hitin niður í bæ var slíkur að maður prísaði sig sælan að vera bara inni í tjaldi og fá smá skugga á sig. Svona líkt og hefði verið dembi rigning. Þá er líka gott að geta sótt í skjólið. Í raun skiptir það engu máli fyrir tjaldsölumenn hvernig viðrar - bara að eiga nógu mikið helíum.

Þetta var fínt en nú er ég búin með þjóðhátíðarskammtinn. Ég heyri í hljómsveitunum sem spila við Arnarhól heim til mín (Írafár var að spila Allt sem ég sé rétt áðan) og sé engen tilgang í því að gera mér einhverja ferð út úr húsi til að hlíða á tónleika.

Í tilefni dagsins ákvað ég að klæða bloggið sumarfötunum. Einnig var Varríus að barma sér yfir því að geta ekki lesið þetta blogg og þótt ég hafi ekki fengið fleiri kvartanir veit maður aldrei. Vonandi virkar þetta betur. Og til hamingju, Ljótu Hálfvitar, með Grímuna ef þið skylduð lesa þetta einhvern tímann.

miðvikudagur, júní 15, 2005

Tæki og tól halda áfram að svíkja mig. Ef einhver sem les þetta skyldi slysast framhjá Háteigsveginu vil ég að það komi skýrt fram að ástæðan fyrir því að garðurinn minn er aðeins hálfsleginn er sú að bannsett slátturvélin koxaði á steini sem hún reyndi að slá. Nú situr hún skömmustuleg og ansi lemstruð úti í garði og verður að vera á hvolfi til að forða því að allt leki niðrum hana. Mín annars umtalsverða leti kom ekki við sögu hér - bara svo það sé á hreinu.

Annars olli vélin mér meiri ama en að bregðast þeim skyldum sínum að færa mér fallegan garð. Nú hef ég ekki afsökun fyrir því að vera úti í góða veðrinu og verð að halda áfram með viðtölin sem ég ætlaði víst að klára í dag. Grr...

Til hamingju með afmælið Svandís og ektamaður. Hvernig væri nú að kíkja í heimsókn bráðlega svo hægt sé að halda almennilega upp á afmælið?

föstudagur, júní 10, 2005

Úff - hvað er að gerast? Mér finnst eins og ég hafi hrokkið úr gír þessa fyrstu viku í júní. Sennilega er bara fyrir löngu kominn tími á frí. Hef ekki tekið mér svoleiðis síðan ég fór til Manchester í nóvember síðastliðnum. Upphaflega stóð til að vera litla bróður innan handar með soninn á meðan konan fór í rannsóknarleiðangur til Vestmannaeyja en nú er hún hætt við það og ég skyndilega laus og liðug þessa næstu viku. Eða þannig. Þarf reyndar að skrifa tvö viðtöl og mæta í skóla. Og spá fyrir fóstrum í óvissuferð í Elliðarárdalnum á morgun. Svosem nóg að gera.

Sá lokaþáttinn af CSI (þ.e. alvöru lokaþáttinn - ekki það sem Skjár Einn kallar lokaþátt en þýðir í raun að þeir hætti sýningum í miðri seríu.) Nú er ég ekki mikill aðdáandi þessara þátta - jú jú ágætis afþreying svona við og við - og þá helst þessir upprunalegu - ég hef lítið nennt að fylgjast með afsprengjunum í Miami og New York. En þeir líða fyrir það að vera fyrirsjáanlegir og formúlukenndir með eindæmum: Alltaf skal sagt frá tveimur málum - alltaf skal Grissom kom með kaldhæðið komment áður en titillagið byrjar - alltaf skal sökudólgurinn játa - alltaf skal vera hægt að skýra vídeóupptöku með því að ýta á einn takka þótt í reynd sé það ómögulegt - alltaf skulu aðalpersónurnar tala niður til sökudólgana með hroka og yfirlæti - aldrei skal sjást sviti eða hár úr skorðum á fólki sem hefur verið að gramsa í ruslagámi í 12 tíma.

Því var nokkuð forvitnilegt að sjá hvað Quentin Tarantino myndi gera við formatið en hann bæði skrifaði og leikstýrði þessum lokaþætti.

Vá.

Þetta var ekki sami þátturinn. Þetta var pimpaða útgáfan með dvd spilara í loftinu og læk í skottinu. Plottið var einfalt - einhver rænir Nick Stokes og kviksetur. Samtarfsmenn hans þurfa að keppa við tímann og finna hann áður en hann deyr. En þátturinn bauð bara upp á svo miklu meira. Skyndilega urðu persónunar lifandi og raunverulegar. Leikararnir voru ekki lengur á autopilot og höfðu úr einhverju að moða. Leikstjóri reyndi augljóslega að fara aðrar leiðir með leikarana og með litlum breytingum hér og þar tókst að ná fram alvöru persónusköpun. Sarah varð yfirspennt, Warrick taugaveiklaður, Catherine biðjandi, Nick viti sínu fjær af hræðslu. Lítil aukaatriði krydduðu söguþráðinn; Ecklie varð manneskjulegur og ráðlagði undirmönnum sínum, pabbi Catherine rifjar upp gömlu góðu dagana í spilavítinu ásamt Tony Curtis, litli skrítni kúrekalögræðingurinn sem hafði aldrei fengið jafn stórt mál og fór yfirum í ráðleggingum, töffarasaga Warrick, draumaatriði Nick og svo mætti lengi telja. Aldrei þessu vant voru löggurnar þreyttar og úttaugaðar, komust ekkert áfram með rannsókn málsins, þurftu aldrei að skýra vídeóupptöku til að ná bílnúmeri, gerðu heimskuleg mistök og - það sem kom mest á óvart - voru aldrei pirrandi eða yfirlætisfullar. Þetta er CSI eins og það ætti að vera. Sorglegt að vita til þess að allt muni fara í sama farið næsta haust.

fimmtudagur, júní 02, 2005

Það skiptast á skin og skúrir í mínu sálarlífi. Nýjasta drama? Hátalarnir á tölvunni sem ég nota nú í vinnunni (sumarstarfskrafturinn er með mína) vilja ekki virka. Sem þýðir að hér ríkir alger þögn og enn og aftur get ég ekki hlusta á nýja diskinn minn. Í sjötta skipti á einum sólarhring. Ahemm.

Já ég á bágt. Blóm og kransar vel þegnir.

Annars er ég nú bara að venjast nýjum aðstæðum - líkt og nýja stelpan. Svona til að bjóða hana velkomna í ríkisbatteríið bankaði upp á hjá okkur fyrir hádegi eldri kona sem ég hef grun um að hafi komið hingað áður. Hún virtist vera að leita að Lyfjastofnun en brátt varð ljóst að allar hennar fyrirætlanir voru algjört aukaatriði því þessari ágætu konu var það til lista lagt að geta sett heilann sinn algjörleg á random. Það er ekki hver sem er sem getur spannað ein 7 umræðuefni í einni setningu og það án þess að anda. Þegar ekki leit út fyrir að hún ætlaði sér nokkurn tímann að fara þóttumst við Katrín skyndilega vera önnum kafnar og ég opnaði fyrir hana hurðina. Þurfti reyndar að gera nokkrar tilraunin því aumingja konan var sífellt að stoppa í hurðinni og segja okkur skoðanir sínar á Indverjum, landrofi, háskólamenntun, ríkisrekstri, sjómennsku og fleira skemmtilegu.

Bætti við link á hann Guðmund Erlingsson sem ég þekki að vísu ekki neitt en hef stolið svo grimmt af honum tónlist (og ber hann einnig ábyrgð á nýjust plötukaupum mínum) að annað er varla sæmandi.

Átti einstaklega ljúfa kvöldstund í gær þar sem ég sat við stofuborðið mitt í þrjá og hálfan tíma og gerði hljómfræðiverkefnin mín. Hlustaði bara á góða tónlist (sjá ofar í færslu) og dundaði mér við að gera hljómkort og fleira gáfulegt sem ég kann ekki að útskýra. Var að vísu soldið lengi að átta mig á hvað sneri upp og hvað niður og var alltaf að byrja á vitlausum verkefnum en þetta hafðist. Og var bara alls ekki leiðinlegt. Einhvern veginn á ég ekki von á því að sú upplifun nái að endurtaka sig.

Þessi færsla fer að verða jafn random og kerlingargreyið (þarf endilega að spyrja hana að nafni næst þegar hún kemur - sem verður samkvæmt útreikningum mínum í byrjun september 2006.)

Jamm.

miðvikudagur, júní 01, 2005

Ég skellti mér í heilsubótargöngutúr í hádeginu í dag og kom aftur til baka þó nokkrum krónum fátækari. Gönguferðir eru með dýrari líkamsrækt sem ég get stundað. Ferð upp og niður Laugarveginn kostaði mig:

1 jójó (200 kr. í Tiger)
Heathers á dvd (400 kr. í Tiger)
1 pulsa + kók (300 kr. í sjoppu)
Yann Tiersen - Les Retrouvailles (2990 kr. geisladiskur + dvd)

Samtals 3890 kr. Margborgar sig að skipta við líkamræktarstöðvar.

Ég s.s. viltist inn á blogg sem Siggalára linkar á, fann þar einhver lög sem mér leist svo ágætlega á að ég keypti diskinn í snarhasti. Er nú farin að sjá eftir því. Fjandans diskurinn vill ekki spilast í tölvunni! Og ég sem á ekki geislaspilara. Það kemur jú einhver ósköp ljúf teiknuð stuttmynd þegar ég set diskinn í en það er það eina sem finnst. Mér finnst þetta ansi dýr stuttmynd. Það fylgir annar diskur með þessari (deluxe) útgáfu; dvd af einhverri mynd sem ég veit ekkert um og finnst það bara spennandi. Kostaði fyrir vikið 1000 kr. meira en bara geisladiskurinn - þeir sem þekkja mig vita að ég get ekki látið svoleiðis vera. En það átti að vera bónusinn - ekki allur pakkinn! *humph!*

Hin sorglega staðreynd er sú að það hefði verið miklu einfaldara fyrir mig að finna og dánlóda lögunum fullkomlega ólöglega af netinu. Og talsvert ódýrara.


Ok ég er kannski pínu ponsu taugaveikluð. WinAmp neitar að spila diskinn en Windows Media Player er alveg geim. Allt í góðu.