fimmtudagur, janúar 12, 2006

Sér loksins fyrir endann á þessu pestarferli og mér þá óhætt að tjá mig á ný. Ég er alltaf soldið hrædd um að blogga á slíkum stundum og fara þá að væla yfir eymd minni sem er, þegar grannt er skoðað, í raun ekki það mikil. Sérstaklega þegar haft er í minnum flensufárið mikla í janúar 1997 sem lagði íbúa Leifsgötu 21 (+ Einsa) í einni hendingu og hefur ennþá ekki verið toppað. A.m.k. ekki hvað mig varðar.

Þrjár vikur þangað til ég held í lengsta ferðalaga sem ég hef mannað mig upp í og mál að byrja að panikka yfir smáatriðunum. Ekki veit ég af hverju ég er alltaf að sækja í þessi ferðalög þegar mér finnst svona leiðinlegt að ferðast. Það er auðvitað alltaf gaman að koma til nýrra áfángastaða en ferðaupplifunin er oftast svo hörmuleg að það nálgast við að vera fóbía. Troðningur á flugvöllum, stress varðandi farangur, bókanir sem klikka, fólk sem týnist, sæti með engu plássi fyrir lappir ... ég fæ satt að segja ekki séð að nokkur manneskja fái notið þessarar upplifunar nema vera nógu lágvaxin og með netta sjálfspíningarhvöt. Ég þyrfti að vera rík og fræg til að hafa fólk í vinnu við að stressast fyrir mig á ferðalögum.

Það sem ég er kannski helst að mikla fyrir mér er að ferðalagið til Manchester fyrir rúmu ári var nógu þyrnum stráð og það var nú bara eins og að skreppa í næstu sveit. Ég hef enga hugmynd um alla þá milljón litlu hluti sem geta farið úrskeiðis á leiðinni frá London til Singapore til Sidney - hvort farmiðarnir eru allir réttir, hvort vegabréfsáritanir sem ég reddaði mér á netinu hafi verið rétt framkvæmdar, hvort ég muni alltaf rata á rétta staði á réttum tíma. Ég hef svo ekkert pláss eftir til að hafa áhyggjur af hlutum á borð við sprengjuhótanir, tollamisskilning og flugslys. Það sem á eftir að halda fyrir mér vöku síðustu næturnar fyrir brottför er tilhugsunin um hinn Erlenda Flugvallastarfsmann sem meinar mér aðgang því ég gleymi að merkja í "ekki djók pöntun" boxið sem er örugglega falið einhvers staðar á öllum slíkjum pöntunarsíðum.

Annars hef ég hugsað mér að vera með nefið grafið sem kyrfilegast ofan í þessa bók á meðan á ferðalaginu stendur.

Næst þegar ég held í slíka langför verður það í gegnum virta ferðaskrifstofu og helst með farastjóra til að halda í höndina á mér. Nema auðvitað þetta gangi eins og í sögu eftir þrjár vikur.

3 ummæli:

Sigga Lára sagði...

Já, körin á Leifsgötunni forðum verður vonandi aldrei leikin eftir. Held helst að þar höfum við nú bara fengið fuglaflensu.

Bára syss kom með eitt nýtt ráð til að láta sér ekki leiðast á flugvöllum heim í jólafríið. Hún taldi flísarnar í loftinu þar sem hún þurfti að bíða. Og hafði gaman af. (En hún systir mín er náttlega borderlæn einhverf.)

Ásta sagði...

Jamm - og setti sennilega vælustuðulinn ansi hátt.

Ég hef litlar áhyggjur af því að leiðast - ef þetta verða leiðinlegustu sólarhringar lífs míns verð ég afskaplega fegin. Ég hef frekar áhyggjur af öllu því áhugaverð sem getur orðið á vegi mínum. Það ku víst ekki vera sniðugt að lifa á áhugaverðum tímum - sérstaklega ekki á asískri grund.

Nafnlaus sagði...

Ferðin þín hljómar einstaklega spennandi! Sidney ku vera alveg brilliant (ferðaóð vinkona mín er einmitt stödd þar núna) og ég held þú þurfir ekki að hafa neinar áhyggjur af flugvöllunum... það er alltaf nóg af skrítnu fólki að skoða á flugvöllum ef maður fær leið á bókinni sinni...

Góða ferð og rosalega góða skemmtun,
Vera (alls ekkert öfundsjúk ehemm)